Fara í efni

27. fundur sveitarstjórnar

21.03.2024 14:00

Fundur í sveitarstjórn

27. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 21. mars 2024. Fundur settur kl. 14:00 (eftir kynningu frá SSNE sem hófst kl. 13:00.

Áður en fundur hófst kynntu Anna Lind og Díana niðurstöður vinnustofu um „fjárfestingar á Norðurlandi“.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Margrét Guðmundsdóttir, Þórarinn J. Þórisson, Júlíus Sigurbjartsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Grétar Jósteinn Hermundarson, Björn S. Lárusson og Svala Sævarsdóttir sem ritaði fundargerð. Einnig kom Sigríður Friðný Halldórsdóttir inn undir lið 15.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 943 frá 9.02.2024
2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 944 frá 23.02.2024
3. Fundargerð 22. fundar byggðaráðs frá 7.03.2024
4. Fundargerð 5. fundar landbúnaðar- og dreifbýlinefndar frá 21.02.2024
     04.1 Erindi frá Reimari Sigurjónssyni um kaup á girðingu.
5. Fundargerð 10. fundar Jarðasjóðs frá 29.02.2024
6. Fundargerð 23. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 12.03.2024
7. Fundargerð 13. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 12.03.2023
8. Fundargerð 15. fundar velferðar og fræðslunefndar frá 14.03.2024
     8.1 Samstarfssamningur við Aflið
     8.2 Samningur um barnaverndarþjónustu við Akureyrarbæ
     8.3 Samningur HSN og Naust um hjúkrun
     8.4 Samningur HSN og Naust um læknaþjónustu.
     8.5 Eldri samningur um læknaþjónustu frá 2021
     8.6 Útreikningar á kostnaði
9. Erindi frá Lyngholt ehf. þar sem óskað er viðræðna um leigu á Þórsveri
10. Erindi frá Ágústi Marinó Ágústssyni um kaup á 20% hlut Langanesbyggðar í félaginu Skör ehf.
11. Áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga vegna kjarasamninga 2024 frá 8. mars 2024.
12. Skýrsla starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu
13. Erindi til sveitarfélagsins um forkaupsrétt á Manna ÞH 88
14. Tillaga um breytingar á dagskrá byggðaráðs og sveitarstjórnar vegna umræðu um ársreikning
15. Erindi frá smábátafélaginu Fonti vegna vinnsluskyldu á grásleppu frá 26. fundi.
     15.1 Frumvarp til laga um veiðistjórn á grásleppu.
16. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 943 frá 9.02.2024
Fundargerðin lögð fram.

2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 944 frá 23.02.2024
Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð 22. fundar byggðaráðs frá 7.03.2024
Fundargerðin lögð fram.

4. Fundargerð 5. fundar landbúnaðar- og dreifbýlinefndar frá 21.02.2024   
     4.1 Bréf frá Reimari Sigurjónssyni um kaup á girðingu. Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd tók jákvætt í erindið. Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að leita samninga við Reimar Sigurjónsson um kaup á girðingunni.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 10. fundar Jarðasjóðs frá 29.02.2024
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 23. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 12.03.2024
Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 13. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar frá 12.03.2023
Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð 15. Fundar velferðar og fræðslunefndar frá 14.03.2024  
     8.1 Samstarfssamningur við Aflið

Félagsþjónusta Norðurþings hefur til skoðunar að gera samstarfssamning við Aflið - samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi, um þjónustu sem Aflið mun veita einstaklingum og hópum í aðildarfélögum. Kostnaður Langanesbyggðar yrði kr. 138.000.- á ári. Velferðar og fræðslunefnd er jákvæð gagnvart gerð slíks samstarfssamnings. Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir að vera aðili að samstarfssamningnum. Sveitarstjórn gerir fyrirvara við aðild að samningnum með tilliti til kostnaðar.

Samþykkt samhljóða.

     8.2 Samningur um barnaverndarþjónustu við Akureyrarbæ – fyrri umræða.
Vegna fámennis hafa sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu þurft að leita eftir samningi við Akureyrarbæ um barnaverndarþjónustu. Fyrirliggjandi er meðfylgjandi samningur sem þarfnast 2ja umræðna í sveitarstjórn. Ekki er gert ráð fyrir umtalsverðum kostnaðarauka þó það liggi ekki endanlega fyrir. Velferðar- og fræðslunefnd gerir ekki athugasemdir við samninginn. Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar hefur fjallað um samninginn og samþykkir meðfylgjandi samning. Samningnum vísað til annarrar umræðu.

Samþykkt samhljóða.

     8.3 Samningur HSN og Naust um hjúkrun
     8.4 Samningur HSN og Naust um læknaþjónustu.
     8.5 Eldri samningur um læknaþjónustu frá 2021
     8.6 Útreikningar á kostnaði

HSN hefur lagt fram drög að nýjum samningum við Langanesbyggð hvað varðar þjónustu lækna og hjúkrunarfræðinga á Nausti. Um nokkra hækkun er að ræða sem skýrist af hækkun á launatöxtum en fyrri samningur er frá 2021. Velferðar- og fræðslunefnd hefur farið yfir samningana og samþykkir þá. Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir nýja samninga við HSN vegna þjónustu lækna og hjúkrunarfræðingar. Sveitarstjóra falið að undirrita samningana.

Samþykkt samhljóða.

9. Erindi frá Lyngholt ehf. þar sem óskað er viðræðna um leigu á Þórsveri
Karen Rut Konráðsdóttir hefur óskað eftir viðræðum við Langanesbyggð um leigu á Þórsveri til að koma þar upp kaffi og veitingahúsi ásamt þeirri þjónustu sem þegar er veitt í húsinu. Til máls tóku sveitarstjóri og Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að ræða við Karen Rut Konráðsdóttur og leggja fram drög að hugsanlegum samningi um leigu á Þórsveri.

Samþykkt samhljóða.

10. Erindi frá Ágústi Marinó Ágústssyni um kaup á 20% hlut Langanesbyggðar í félaginu Skör ehf.
Ágúst Marinó Ágústsson hefur lagt fram formlegt tilboð í kaup á hlut Langanesbyggðar í félaginu Skör ehf. Tilboðið hljóðar upp á kr. 100.000.- Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að selja hlut sinn í félaginu og felur sveitarstjóra að ganga frá sölunni fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

11. Áskorun til sveitarfélaga vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og Sambands ísl. sveitarfélaga vegna kjarasamninga 2024 frá 8. mars 2024 og bréf framkvæmdastjóra sveitarfélaga vegna áskorunar til sveitarfélaga í tengslum við kjarasamninga frá 13. mars 2024
Samband sveitarfélaga hefur sent sveitarfélögunum áskorun í tengslum við gerð kjarasamnings. Áskorunin er ekki bindandi fyrir sveitarfélögin enda hefur Sambandið ekki umboð til þess. Áskoruninni er fylgt eftir með bréfi frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga. Til máls tók Júlíus Sigurbjartsson.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn lýsir sig samþykka því að taka þátt í útfærslu gjaldfrjálsra máltíða í grunnskóla á komandi skólaári. Þá mun sveitarstjórn hafa áskorunina til hliðsjónar við ákvörðun gjaldskráa 2025 og leitast við að þær verði ekki utan tilgreindra viðmiða.

Samþykkt samhljóða.

12. Skýrsla starfshóps um skattlagningu orkuvinnslu
Skýrslan lögð fram til kynningar

13. Erindi frá eiganda Manna ÞH 88 um forkaupsrétt ásamt samningi um sölu.
Eigandi Manna ÞH 88 hefur sent fyrirspurn til sveitarfélagsins hvort það muni nýta forkaupsrétt að bát og kvóta. Samningsdrög um sölu liggja fyrir.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að falla frá forkaupsrétti að bát og kvóta Manna ÞH 88.

Samþykkt samhljóða.

14. Tillaga um breytingar á dagskrá byggðaráðs og sveitarstjórnar vegna umræðu um ársreikning 2023.
Vegna SSNE þings og að seinni umræða um ársreikning er áætluð 2. maí þegar reglulegur byggðaráðsfundur var áætlaður er lögð fram meðfylgjandi tillaga um breytingu á fundum byggðaráðs og sveitarstjórnar.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framkomna tillögu um breytingar á fundartíma vegna umræðu um ársreikning sveitarfélagsins fyrir árið 2023.

Samþykkt samhljóða.

15. Erindi frá smábátafélaginu Fonti vegna vinnsluskyldu á grásleppu frá 26. fundi.   
      15.1 Ásamt erindinu er lagt fram frumvarp til laga um veiðistjórn á grásleppu. Til máls tók Gunnlaugur Steinarsson og lýsti sig vanhæfan í                             atkvæðagreiðslu undir þessum lið. Samþykkt samhljóða og Gunnlaugur vék af fundi og í hans stað kom Sigríður Friðný Halldórsdóttir.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn óskar ekki eftir frekari breytingum á sérreglum um byggðakvóta.

Samþykkt með atkvæðum Halldóru, Sigríðar, Margrétar, Sigurðar og Jósteins. Á móti Þórarinn og Júlíus. Sigríður víkur af fundi og Gunnlaugur kemur inn.

16. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.

Í síðustu viku sátu sveitarstjóri og oddviti þing Sambands ísl. sveitarfélaga. Þar var – kannski að vonum – deilt mjög hart um þá ákvörðun að beina því til sveitarfélaga að draga úr eða fella niður gjaldskrárhækkanir og það sem mest var deilt um að hafa gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum sem tæki þá gildi á næsta skólaári. Í sjálfu sér snerust þessar deilur ekki um aðgerðirnar, sérstaklega ekki hvað varðar gjaldfrjálsar máltíðir sem slíkar heldur miklu fremur um aðferðarfræðina þar sem sveitarfélögin urðu með þessu beinn þátttakandi í kjaraviðræðum og því beint til þeirra að leggja sitt af mörkum. Sveitarfélögin eiga hinsvegar eftir að semja við sína umbjóðendur sem eru í ýmsum öðrum stéttarfélögum til dæmis innan BSRB og BHM. Hér var búinn til hluti af skapalóni fyrir þær viðræður. BHM hefur hinsvegar lýst því yfir að þær beinu kjarabætur sem samið var um munu þeir ekki samþykkja því með krónutöluhækkun sé menntun þeirra ekki metin sem skyldi að þeirra mati. Niðurstaðan um fríar skólamáltíðir varð ofaná þar sem ríkið kemur til með að greiða 75% tekjutaps sveitarfélaga sem þýðir samt sem áður minni tekur sem nema um 3 milljónum hjá okkur og varðandi gjaldskrá fyrir næsta ár verðum við einfaldlega að sjá hvor þær spár sem koma fram í kjarasamningum rætist. Þess vegna er bókun um gjaldskrár 2025 varlega orðuð.

Nú um stundir erum við í miklum framkvæmdum, við Naustið, sorpmóttökusvæði og síðast en ekki síst lítur út fyrir að farið verði í þær framkvæmdir sem tengjast breytingum á höfninni á Þórshöfn. Enn liggur ekki fyrir hvort og þá hvenær ríkið muni setja þann þátt sem snýr að þátttöku þeirra í framkvæmdinni inn á samgönguáætlun en góðar vonir standa til þess eftir viðræður við fulltrúa í nefndinni og þingmenn. Allavega hefur verið lögð áhersla á að fá vilyrði fyrir því að ríkið muni samþykkja þessar framkvæmdir og setja inn í sínar áætlanir. Hvort það verður í ár eða á næsta ári liggja ekki fyrir nein loforð því eins og ég sagði, þá hefur okkur ekki verið gefið afgerandi loforð fyrir því hvort og þá hvenær framlag ríkisins liggur fyrir – en góðar vonir standa til þess eftir þessar viðræður.

Varðandi sorpmóttökustöðina þá erum við einfaldlega að uppfylla lagaskyldu í sorpmálum að draga úr magni sorps, flokka og farga á sem hagkvæmasta hátt. Það kemur okkur vonandi til góða þegar móttökustöðin og nýtt skipulag sorpmála verður tekið í notkun sem við vonumst til að verði í síðasta langi um næstu áramót. Í dag eru tekjur af sorpgjöldum rúmlega 40% af útgjöldum og fara hratt minnkandi sem hlutfall af útgjöldum sem er í raun ólöglegt. Tekjur eiga að vera jafnar útgjöldum. Við erum að greiða tugi milljóna til þessara mála sem ætti að vera óþarfi ef vel er á málum haldið. Í ljós hefur komið að við gerð frumáætlunar um mitt síðasta ár var það svæði sem við ætluðum undir starfsemina of lítið. Lóðirnar nr. 4 og 6 við Háholt voru sameinaðar til að koma fyrir móttökuhúsi en við nánari skoðun er mun hagkvæmara að bæta við lóðum nr. 3 og 5 við Markholt, snúa móttökuhúsinu þannig að hægt verði að aka í gegn um það og nota lóðina við Markholt 3 til þess. Við Markholt nr. 5 verður svo geymslusvæði fyrir það sorp sem tilbúið er til flutnings frá móttökustöð. Umhverfisfulltrúi hefur unnið að því undanfarið að rýna bæði drög að útboði sem fyrirhugað er og ennfremur svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs á Norðurlandi og skoðað sérstaklega hvaða tækjabúnað þarf að fjárfesta í til að móttökustöðin virki sem skyldi. Þar eru ótal möguleikar í boði, allt eftir því hvaða stefnu við tökum með og í kjölfar útboðs. Útboðið verður þannig úr garði gert að við gefum tilboðsgjöfum kost á að bjóða í allt verkið eða hluta þess sem gefur heimamönnum tækifæri á að koma myndarlega að verkinu. Einnig er verið að skoða vandlega kosti og galla þeirra aðferða sem helst koma til greina við sorphirðu, móttöku og förgun. Þar er bæði sótt í reynslubanka annarra sveitarfélaga og miðað við aðstæður hér þar sem flutningur er einn stærsti kostnaðarliðurinn. En – allt byrjar þetta heima hjá okkur og ef við erum ekki meðvituð um flokkun, sem er einn stærsti liðurinn í þessu þá er verr af stað farið en heima setið.

Önnur framkvæmd sem vert er að nefna er gerð bílastæðis fyrir ofan Langanesveg 1 til að létta á bílastæðaþörf hér miðsvæðis. Þar er gert ráð fyrir að koma upp hraðhleðslustöð fyrir rafmagnsbíla. Það hefur reynst erfiðara og flóknara en virðist í fyrstu. Vegagerðin hefur neitað okkur um sérstaka innkeyrslu frá Langanesvegi svo við verðum að semja við eigendur Kjörbúðarinnar um að setja kvöð á lóðina Langanesveg 1 um sameiginlega aðkomu að þeirri lóð og bílastæðinu. En þá flækist málið því það standa tvö hús við Langanesveg 1, annars vegar í eigu KSK eigna og hinsvegar í eigu Ísfélags. Eignaskiptasamningur sem gerður var á milli þeirra 1997 er ekki með réttar lóðastærðir né stærðir húsa og því þarf ný lóðarblöð og nýjan eignaskiptasamning á milli þeirra auk þess sem notkun húss Ísfélagins hefur breyst. Þá þarf að gera nýjan lóðasamning um Langanesveg 1 sem báðir þurfa að samþykkja. Lóðablöð þurfa samþykkt skipulagsnefndar, því næst beiðni til byggingafulltrúa um skráningu lóðablaðs hjá HMS sem getur tekið allt að mánuð. Í lokin þarf svo að þinglýsa öllu, lóðasamningi og eignaskiptasamningi með tilliti til lóðablaða. Ef ekki er farið nákvæmlega eftir þessu ferli eða villa reynist í einhverju skjali eða „Computer says no“ þarf að byrja á öllu upp á nýtt. Kerfið lætur ekki að sér hæða. Því miður hefur svona flækjustig reynt á þolinmæðina, ekki bara við þetta verkefni heldur einnig varðandi lóðir, sérstaklega á Bakkafirði þar sem kaup- og leigusamningar virðast hafa verið þinglýstir í kross og enginn veit um upprunalega eigendur eða leigjendur sem jafnvel eru látnir fyrir löngu. Ekki þar fyrir, því þetta hefur einnig komið í ljós hér á Þórshöfn. Tengt þessu eru svo óskráðar eigir í öllu sveitarfélaginu sem jafnvel hafa verið byggðar á síðustu árum og engin leyfi eru fyrir. Þannig verður sveitarfélagið af tekjum af fasteignagjöldum og eignirnar eru ótryggðar.

Það er því í mörg horn að líta þessa daga og framundan er gerð ársreiknings fyrir árið 2023. Ég setti upp fundaplan sem hér var lagt fram en þar koma fram breytingar sem þurfti að gera þar sem þing SSNE var sett á fundardag sveitarstjórnar og seinni umræðu lagði endurskoðandi til að færi fram 2. maí en þá var samkvæmt áætlun byggðaráðsfundur sem verður fluttur til 30. apríl. Svo er alltaf möguleiki á aukafundum á milli til að spyrja endurskoðendur spurninga og átta sig betur á ársreikningnum ræða hann sérstaklega. Til máls tók Halldóra Jóhanna og sveitarstjóri svaraði.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 15.00

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?