Fara í efni

30. fundur sveitarstjórnar

23.05.2024 15:00

Fundur í sveitarstjórn

30. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 23. maí 2024. Fundur settur kl. 15:00.

Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Hulda Kristín Baldursdóttir, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Hjörtur Harðarson, Björn S. Lárusson og Bjarnheiður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.

Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

1. Þinggerð ársþings SSNE frá 18. og 19. apríl s.l.
2. Fundargerð 63. fundar stjórnar SSNE frá 30.04.2024.
3. Fundargerð 26. fundar byggðaráðs frá 6.05.2024.
     03.1 Kaupsamningur vegna Fjarskiptafélags Svalbarðshrepps.
4. Fundargerð 26. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 14.05.2024.
     04.1 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 26. fundi.
     04.2 Punktar og athugasemdir nefndarinnar frá 21. fundi nefndarinnar frá 16.01.2024
5. Fundargerð 9. fundar hafnarnefndar
6. Erindi vegna slita Héraðsnefndar Þingeyinga bs. frá 30.04.2024.
     06.1 Fundargerð framkvæmdastjórnar HNÞ frá 06.05.2024
     06.2 Drög að ársreikningi HNÞ fyrir árið 2023
7. Ársreikningur „Greiðrar leiðar“ VHG fyrir árið 2023.
8. Endurskoðaður samningur um félagsþjónustu við Norðurþing.
9. Samningur um fjárstyrk til Björgunarsveitarinnar Hafliða, endurskoðun.
10. Verksamningur vegna framkvæmda við höfnina við Skútaberg ásamt fylgigögnum.
11. Skýrsla sveitarstjóra
12. Vinnufundur sveitarstjórnar 17. apríl 2024 – Trúnaðarmál.

Fundargerð

1. Þinggerð ársþings SSNE frá 18. og 19. apríl s.l.
Þinggerðin lögð fram

2. Fundargerð 63. fundar stjórnar SSNE frá 30.04.2024
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 26. fundar byggðaráðs frá 6.05.2024
     03.1 Kaupsamningur vegna Fjarskiptafélags Svalbarðshrepps.

Lagður fram kaupsamningur á milli Langanesbyggðar og Tengis hf. um sölu á öllum eignum og rekstri Fjarskiptafélags Svalbarðshrepps. Eignir félagsins samanstanda að mestu af fjarskiptainnviðum í jörðu, þ.e. ljósleiðarastrengjum og rörum, auk tengiboxa og tengiskápa og öðrum sem við á og tilheyrir rekstrinum. Þá skuldbindur Tengir sig til að leggja ljósleiðara á Þórshöfn og jafnframt útbúa 3 sendistaði fyrir GSM senda innan sveitafélagsins til að mögulegt verði að dekka allt sveitafélagið með GSM sambandi.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leiti samkvæmt 11. gr. hans um fyrirvara og felur sveitarstjóra að undirrita hann fyrir hönd sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

4. Fundargerð 26. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 14.05.2024
     04.1 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar frá 26. fundi.
     04.2 Punktar og athugasemdir nefndarinnar frá 21. fundi nefndarinnar frá 16.01.2024.

Á 21. fundi skipulags- og umhverfisnefndar þann 16. janúar s.l. lagði nefndin áherslu á að meðfylgjandi punktar yrðu hafðir til hliðsjónar við afgreiðslu nýs skipulags hafnarinnar. Á síðasta fundi nefndarinnar þann 14. maí s.l. ítrekaði nefndin að sveitarstjórn ynni úr þeim atriðum sem komu fram í þeim punktum, sérstaklega hvað varðar innviðauppbyggingu og samfélagssáttmála á milli Ísfélags og Langanesbyggðar.

Til máls tóku: Þorsteinn, oddviti, Sigríður Friðný, Þorsteinn, oddviti, Mirjam, Júlíus, Þorsteinn, oddviti, sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Byggðaráði og sveitarstjóra falið að ræða við Ísfélag um innviðauppbyggingu og samfélagssáttmála samkvæmt bókun nefndarinnar í ljósi aukinna umsvifa og áhrifa sem verða við breytingar á aðal- og deiliskipulagi hafnarinnar.

Samþykkt samhljóða.

Bókun fulltrúa L-lista: Á fyrri stigum í málinu sem snúa að nýju deiliskipulagi hafnarinnar á Þórshöfn og í framhaldinu framkvæmdaleyfi til handa Ísfélagsins á svæðinu hafa fulltrúar L-lista sett mikla fyrirvara og athugasemdir við vinnulag og afgreiðslu stjórnenda sveitarfélagsins í málinu. Lýsandi fyrir vinnubrögð þessara aðila í þessu máli er að hér þarf umhverfis- og skipulagsnefnd að minna meirihluta og sveitarstjóra á sína punkta sem komu fram á fundi nefndarinnar 16 janúar sl. Það er ekki fyrr en í dag 24. maí sem þeir eru teknir til umræðu í sveitarstjórn, þegar búið er að afgreiða deiliskipulag, framkvæmdaleyfi og framkvæmdir komnar á fulla ferð.

Fulltrúar L-lista taka heilshugar undir punkta og athugasemdir skipulagsnefndar sem hefðu átt að liggja til grundvallar ákvörðunar um að samþykkja nýtt deiliskipulag og veitingu framkvæmdaleyfa á svæðinu.

5. Fundargerð 9. fundar hafnarnefndar
Fundargerðin lögð fram

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.

6. Erindi vegna slita Héraðsnefndar Þingeyinga bs. frá 30.04.2024
     06.1 Fundargerð framkvæmdastjórnar HNÞ frá 06.05.2024
     06.2 Drög að ársreikningi HNÞ fyrir árið 2023

Á síðustu tveimur fundum fulltrúaráðs Héraðsnefndar Þingeyinga hefur komið fram almennur vilji til að leggja nefndina niður þar sem hlutverk hennar og verkefni hafa farið sífellt minnkandi á undanförnum árum. Framkvæmdastjóri HNÞ hefur því sent meðfylgjandi erindi til allra sveitarstjórnar sem eiga aðild að HNÞ og óskað eftir því að slit á nefndinni verði tekin fyrir á fundi sveitarstjórna aðildarfélaganna. Samkvæmt stofnsamningi Héraðsnefndar, lV kafla þarf samþykki allra sveitarstjórna aðildarsveitarfélaga til að starfsemi byggðasamlagsins sé hætt, eða að það hafi verið samþykkt í almennri atkvæðagreiðslu á starfssvæði byggðasamlagsins.

Hjálögð eru einnig drög að ársreikningi fyrir HNÞ fyrir árið 2023.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þorsteinn, sveitarstjóri,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn Langanesbyggðar samþykkir fyrir sitt leyti erindi framkvæmdastjóra um að vinna að því að leggja nefndina niður í samræmi við ákvæði 5. mgr. 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Samþykkt samhljóða.

7. Ársreikningur „Greiðrar leiðar“ VHG fyrir árið 2023
Ársreikningurinn lagður fram

8. Endurskoðaður samningur um félagsþjónustu við Norðurþing
Sveitarfélögin í Þingeyjarsýslu hafa endurskoðað samning um félagsþjónustu frá árinu 2011 þar sem tekin er út sá kafli sem fjallar um barnavernd. Sveitarfélögin hafa gert samning við Akureyrarbæ um þann þátt félagsþjónustunnar. Meðfylgjandi samningur hefur verið yfirfarinn af Innviðaráðuneyti en hann er undirritaður með fyrirvara um samþykki allra sveitarstjórna og staðfestingu innviðaráðuneytisins, sbr. 93. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2018.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

9. Samningur um fjárstyrk til Björgunarsveitarinnar Hafliða, endurskoðun.
Björgunarsveitin Hafliði hefur farið þess á leit við sveitarfélagið að styrktarsamningur sem gerður var til 3ja ára árið 2022 verði endurnýjaður. Meðfylgjandi er nýr samningur við sveitina fyrir árin 2024-2026 og mun gilda til 01.06.2026.

Til máls tóku: Sveitarstjóri,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn fyrir sitt leyti og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

10. Verksamningur við Skútaberg vegna framkvæmda við höfnina ásamt fylgigögnum.
Á 28. fundi sveitarstjórnar þann 17. apríl s.l. var sveitarstjóra falið að undirrita meðfylgjandi samning við Skútaberg um framkvæmdir við höfnina.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, sveitarstjóri, Mirjam, oddviti, Mirjam, Þorsteinn, oddviti, Mirjam, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn, sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, Mirjam, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Sigríður, Þorsteinn, Sigríður, sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn ítrekar heimild sína til sveitarstjóra að undirrita verksamning við Skútaberg sem nú liggur fyrir ásamt fylgigögnum.

Atkvæðagreiðsla með bókun: Sigurður, Hulda, Sigríður, Hjörtur. Á móti bókun: Þorsteinn, Mirjam. Situr hjá: Júlíus.

Bókun fulltrúa L-lista: Verksamningur við Skútaberg ehf. hefur nú þegar verið samþykktur á 28 fundi sveitarstjórnar dags. 17 apríl sl. af meirihluta. Afgreiðslan hljóðaði svona „Einnig heimilar sveitarstjórn sveitarstjóra að undirrita verksamninga samkvæmt framlögðum gögnum og verðkönnun við Skútaberg ehf. að fjárhæð kr. 79.254.563.- m/vsk.“

Hvaða knýjandi aðstæður eða almannahagsmunir lágu að baki þessarar mjög sérstöku flýtimeðferðar sem málið hefur fengið hjá stjórnendum sveitarfélagsins, þannig að ekki hafi verið hægt að klára lykilgögn í málinu og þau lögð fram við afgreiðslu málsins s.s. verksamning við Skútaberg ehf. eða samkomulag við Ísfélagið um verkið sem byggðaráð samþykkti á 23 fundi sínum að þyrfti að liggja til grundvallar fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis.

Þrátt fyrir þessa afgreiðslu meirihluta lá verksamningur ekki fyrir í gögnum 28 fundar sveitarstjórnar. Ítrekaðar óskir okkar á fundinum um að fá að sjá samninginn skilaði engu þar um og fengum við hann ekki í hendur fyrr en í tölvupósti frá sveitarstjórna dags. 21.05.2024 eftir skriflega beiðni okkar þar um.

Hér í dag ætla stjórnendur sveitarfélagsins að leggja fram þegar samþykktan verksamning og breiða þannig yfir svo óvönduð og léleg vinnubrögð þeirra sjálfra til þess eins og geta sagt að samningurinn hafi verið lagður fram í sveitarstjórn.

Fulltrúar L-lista telja vinnubrögð stjórnenda sveitarfélagsins í besta falli ömurleg og ekki til þess fallin að gæta hagsmuna sveitarfélagsins eða íbúanna sem hér búa. Að þeim sökum geta fulltrúar L-lista ekki samþykkt málið hér í dag og hvetur sveitarstjóra til að leiðbeina fulltrúum meirihluta betur þannig að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir út frá gögnum við afgreiðslu mála.

11. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.

Eftir nærri þriggja vikna frí, með hléum er gott að vera kominn til starfa á ný þó ég hafi aldrei alveg sleppt tökum á vinnunni og reynt að fylgst með því sem var að gerast á þeim tíma sem ég var í burtu.

Framkvæmdir við höfnina sem samþykkt var að fara í með fyllingu og dýpkun standa nú sem hæst og mun væntanlega ljúka um miðjan júní. Það var í lok árs 2022 sem Ísfélagið fór fram á það við sveitarfélagið að fá að leggja fram breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi hafnarinnar til að mæta þeim þörfum sem félagið taldi sig þurfa til að sinna breyttum aðstæðum á markaði með aukinni frystigetu og stærra athafnasvæði við höfnina. Það var verkfræðistofan EFLA sem vann verkið fyrir Ísfélagið og skilaði tillögum sem teknar voru til meðferðar í skipulags- og umhverfisnefnd. Nokkrar athugasemdir gerði nefndin í ferlinu við tillögurnar sem EFLA vann úr jafn óðum og skilaði nýjum til nefndarinnar. Það var því ekki fyrr en á fundi 9 apríl í ár sem nefndin samþykkti að auglýsa skipulagið – með athugasemdum. Fjórir greiddu atkvæði með en einn sat hjá. EFLA skilaði síðan endanlegum tillögum, að teknu tilliti til síðustu athugasemda til skipulagsfulltrúa þann 6. maí sem sendi þær til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun þann 8. maí s.l. Stofnunin tekur sér nú allt að mánuð til að yfirfara tillögurnar áður en þær verða auglýstar.

Til að breytingin gæti gengið upp þurfti að leggja í framkvæmdir við dýpkun og uppfyllingu sem nú standa yfir. Umræða hefur verið um, hvort sú framkvæmd væri sérstaklega skipulagsskyld eða rúmaðist innan gildandi aðalskipulags. Til að taka af allan vafa um það höfum við, bæði ég og formaður skipulagsnefndar verið í góðu sambandi við skipulagsfulltrúa og átt við hann mörg samtöl og tölvupóstsamskipti til að fá staðfestingu á því að framkvæmdaleyfið sem sveitarstjórn samþykkti 17 apríl sl. og gefið var út 22 apríl hafi verið lögum samkvæmt og hann hefur fullvissað okkur um það og gerði það reyndar snemma í ferlinu. Án þess að ég ætli að vitna beint í einkasamtöl eða tölvupósta þá veit ég að skipulagsfulltrúa þykir það miður að ummæli hans hafi verið túlkuð á annan veg en hann sagði, það er, að deiliskipulag þyrfti að liggja fyrir til að fara í þessar framkvæmdir þó hann teldi að það hefði verið betra – en ekki skilyrt. Það er ekki rétt að framkvæmdaleyfið sé ígildi byggingaleyfis enda eru og verða allar byggingar og breytingar á byggingum háðar því að þær séu í samræmi við deiliskipulag. Ekkert hús hefur verið byggt ennþá en Ísfélagið mun sækja um byggingaleyfi fyrir þeim húsum þeim þeir hyggjast byggja þegar Skipulagsstofnun hefur afgreitt skipulagið og auglýst. Það kemur svo til meðferðar skipulagsnefndar og í framhaldi af því byggingafulltrúa. Það má svo hafa skoðanir á því hvort þeirra fyrirætlanir sem við vitum nokkuð um hverjar eru, geti skoðast sem vel í lagðar eða ekki. Hver og einn hefur rétt á sinni skoðun á því og um að gera að koma með athugasemdir þegar Skipulagsstofnun auglýsir eftir þeim. Þess má að lokum geta að í vetur var haldinn íbúafundur þar sem skipulagið og fyrirætlanir Ísfélagsins voru kynntar af EFLU og mér vitanlega hafa ekki komið fram opinberlega mótmæli við þessu fyrr en nú að umræða hefur orðið um lögmæti og/eða misfellur í málsmeðferð.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa framkvæmd eða þetta ferli sem er til meðferðar hjá viðkomandi stofnun en læt það eftir pólitíkinni að ræða hvort við erum að stefna í rétta átt eða ekki í þessum heildarframkvæmdum. Það er ekki hlutverk ópólitísks sveitarstjóra að hafa mótandi skoðanir á því hvert við stefnum heldur framfylgja stefnu og vilja sveitarstjórnar hverju sinni.

Ég er ánægður að sjá að þær framkvæmdir sem við ætluðum okkur á þessu ári á vegum sveitarsjóðs ganga vel, þó nú sé útlit fyrir það í dag að framkvæmdir við Naustið munu líklega fara eitthvað fram úr áætlun af óviðráðanlegum ástæðum sem ég mun gera grein fyrir seinna þegar ég hef fengið skýrari mynd af málinu. Ég bind hinsvegar vonir við að við getum haldið áfram með næsta áfanga ef við fáum til þess fé úr framkvæmdasjóði aldraðra. Sá sjóður er með þannig reglur að ekki er úthlutað úr honum ef framkvæmdir eru hafnar og þær voru það vissulega þegar við leituðum til sjóðsins sem úthlutar aðeins einu sinni á ári. Það var hinsvegar bráðnauðsynlegt að fara í þær framkvæmdir sem við byrjuðum á í vetur. Framtíðin verður svo að skera úr um það hvort okkur tekst að halda áfram og ljúka við að gera Naustið að góðum vinnustað og ekki síst góðu og þægilegu heimili fyrir heimilisfólk.

Til máls tóku: Þorsteinn, Mirjam.

12. Vinnufundur sveitarstjórnar 17. apríl 2024 – Trúnaðarmál.

Oddviti bar upp tillögu að loka fundi.

Samþykkt samhljóða.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:05.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?