34. fundur sveitarstjórnar
Fundargerð
34. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 22. ágúst 2024. Fundur settur kl. 15:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Sigurbjartsson, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Helga Guðrún Henrýsdóttir, Björn S. Lárusson og Bjarnheiður Jónsdóttir sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.
Til máls tók Þorsteinn og gerði grein fyrir ástæðu þess að L-listinn náði ekki að manna þriðja mann á fundinn vegna veikinda.
D a g s k r á
1. Fundargerð 28. fundar byggðaráðs frá 11.07.2024.
2. Fundargerð 29. fundar byggðaráðs frá 08.08.2024.
3. Fundargerð 30. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 13.08.2024.
Breyting á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag hafnarinnar á Þórshöfn
03.1 Viðbrögð við auglýstri tillögu um aðalskipulagsbreytingu.
03.2 Viðbrögð við auglýstri tillögu um nýtt deiliskipulag.
Heildarendurskoðun á deiliskipulagi Bakkafjarðarhafnar frá 12.03.2024.
03.3 Nýtt deiliskipulag Bakkafjarðarhafnar
03.4 Deiliskipulag Bakkafjarðarhafnar – kort.
03.5 Samantekt athugasemda vegna deiliskipulags Bakkafjarðarhafnar.
4. Fundargerð 11. fundar hafnarnefndar frá 15.08.2024.
04.1 Bókanir hafnarnefndar á 11. fundi 15.08.2024
5. Fundargerð 18. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 15.08.2024.
05.1 Bókanir á fundi velferðar- og fræðslunefndar 15.08.2024
05.2 Samþykktir um úthlutun íbúða fyrir aldraða frá 2017
05.3 Samþykktir um úthlutun íbúða fyrir aldraða – endurskoðun drög 2024
6. Tengir – beiðni um framkvæmdaleyfi vegna lagningar ljósleiðara um Hófaskarð frá 09.08.2024.
7. Verktakasamningur við Þórð Þórðarson vegna bílastæðis við Langanesveg.
07.1 Viðauki vegna gerðar bílastæðis við Langanesveg
8. Viðræður við eiganda nýrra húsa á Þórshöfn.
9. Erindi frá Sóknarnefnd Þórshafnarkirkju.
10. Umsögn um veitingu áfengisleyfis fyrir veitingastaðinn Holt.
11. Flutningur á félaginu Fræ ehf. úr B-hluta í A-hluta sveitarsjóðs.
12. Framhald verkefnisins „Betri Bakkafjörður“ - starfsmaður
13. Skýrsla sveitarstjóra.
Fundargerð
1. Fundargerð 28. fundar byggðaráðs frá 11.07.2024.
Fundargerðin lögð fram
2. Fundargerð 29. fundar byggðaráðs frá 08.08.2024.
Fundargerðin lögð fram
3. Fundargerð 30. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 13.08.2024.
Liður 2
03.1 Viðbrögð við auglýstri tillögu um aðalskipulagsbreytingu hafnarinnar á Þórshöfn.
03.2 Viðbrögð við auglýstri tillögu um nýtt deiliskipulag hafnarinnar á Þórshöfn.
Á fundi sínum 13.08.2024 frestaði skipulags- og umhverfisnefnd afgreiðslu á breytingu á aðalskipulagi og nýju deiliskipulagi fyrir höfnina á Þórshöfn vegna úrvinnslu á athugasemdum. Sveitarstjóra var falið að svara þeim athugasemdum sem bárust.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, Þorsteinn, sveitarstjóri, Þorsteinn,
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að bíða úrvinnslu á athugasemdum og mun taka málið upp til endanlegrar afgreiðslu þegar skipulags- og umhverfisnefnd hefur unnið úr þeim.
Samþykkt samhljóða.
Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista taka undir bókun Mirjams undir þessum lið en hún var svohljóðandi „ gerð er athugasemd við að það er Efla sem tekur saman athugasemdirnar við auglýsta tillögu og veitir umsögn. Efla er að vinna fyrir Ísfélagið og er því ekki óháður aðili.“ Slíkir hagsmunaárekstrar eru óásættanlegir og bitna helst á hagsmunum íbúa og samfélagsins í heild.
Liður 3
03.3 Deiliskipulag Bakkafjarðarhafnar frá 12.03.2024.
03.4 Deiliskipulag Bakkafjarðarhafnar – kort.
03.5 Samantekt athugasemda vegna deiliskipulags Bakkafjarðarhafnar.
Fundargerðin lögð fram.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að nýju deiliskipulagi Bakkafjarðarhafnar og felur sveitarstjóra og skipulagsfulltrúa að afgreiða málið til Skipulagsstofnunar.
Samþykkt samhljóða.
4. Fundargerð 11. fundar hafnarnefndar frá 15.08.2024.
04.1 Bókanir hafnarnefndar á 11. fundi 15.08.2024
Liður 1
Endurskoðun á aðalskipulagi og nýtt deiliskipulag hafnarinnar á Þórshöfn
Nefndin telur svör skipulagshönnuðar og skipulagsfulltrúa við athugasemd og umsögnum fullnægjandi og leggur til að sveitarstjórn samþykki fyrirliggjandi tillögu að heildarendurskoðun deiliskipulags hafnarsvæðis Þórshafnar, með ofangreindum breytingum þegar uppfærð gögn liggja fyrir.
Til máls tók: Þorsteinn.
Bókun um afgreiðslu: Vísað til bókunar undir fundargerð 30. fundar skipulags og umhverfisnefndar frá 13.08.2024 undir lið 2 um málið.
Samþykkt samhljóða.
Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista vilja ítreka bókun sína hér að framan undir fundargerð skipulags- og umhverfisnefndar. Þar taka fulltrúar L-lista undir bókun Mirjams undir þeim lið en hún var svohljóðandi „ gerð er athugasemd við að það er Efla sem tekur saman athugasemdirnar við auglýsta tillögu og veitir umsögn. Efla er að vinna fyrir Ísfélagið og er því ekki óháður aðili.“ Slíkir hagsmunaárekstrar eru óásættanlegir og bitna helst á hagsmunum íbúa og samfélagsins í heild.
Liður 2
Heildarendurskoðun á deiliskipulagi Bakkafjarðarhafnar
Bókun um afgreiðslu: Vísað til bókunar undir fundargerð 30. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 13.08.2024 undir lið 3.
Samþykkt samhljóða.
Liður 4
Nefndin beinir því til sveitarstjórnar að lenging viðlegukants verði sett á samgönguáætlun sem fyrst.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: Þorsteinn, sveitarstjóri.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn leggur til að gerð verði þarfagreining með rökstuðningi sem byggir á gögnum fyrir þeirri ákvörðun að lengja eigi viðlegukanta í Þórshafnarhöfn áður en ákvörðun verður tekin um næstu skref. Sveitarstjóra falið að vinna málið í samstarfi við Vegagerðina og Samgöngunefnd Alþingis.
Samþykkt samhljóða.
Bókun fulltrúa L-lista: Undanfarin ár hefur sveitarfélagið lagt gríðarlega mikla fjármuni í innviðauppbygginu á hafnarsvæði Þórshafnar t.d. í formi dýpkunar. Áður en lengra er haldið í frekari framkvæmdum á hafnarsvæðinu óska fulltrúar L-lista eftir að gerð verði þarfagreining með rökum byggð á gögnum hver samfélagslegur ávinnur er við þessi áform. Fulltrúar L-lista telja að meirihluti sveitarstjórnar á þessu kjörtímabili hafi misst stjónar á því sem mikilvægast er að kjörnir fulltrúar standa vörð um en það eru samfélagslegir hagsmunir en ekki sérhagsmunir. Nærtækasta dæmið um slíkt er núverandi skipulagsóreiðan í kringum aðal- og deiliskipulagið á hafnarsvæðinu á Þórshöfn og framkvæmdirnar sem hafnar eru á svæðinu.
5. Fundargerð 18. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 15.08.2024.
06.1 Bókanir á fundi velferðar- og fræðslunefndar 15.08.2024
06.2 Samþykktir um úthlutun íbúða fyrir aldraða frá 2017
06.3 Samþykktir um úthlutun íbúða fyrir aldraða – endurskoðun drög 2024
Liður 2
Ábyrgð og hlutverk sveitarfélaga vegna bils milli fæðingarorlofs og inntöku barna i leikskola – bréf frá Jafnréttisstofu,
Í Langanesbyggð var inntökualdur leikskolabarna færður niður til 12 mánaða aldurs vegna aukins svigrúms vegna fækkunar leikskólabarna. Nefndin hvetur sveitarfélagið að vinna að því að innskriftaraldur 12 mánaða leikskólabarna geti orðið að framtíðarfyrirkomulagi.
Til máls tók Þorsteinn
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur sveitarstjóra að fara yfir það með skólastjóra leikskólans hvað þarf að gera til að þetta geti orðið framtíðar fyrirkomulag og gera sveitarstjórn grein fyrir því.
Samþykkt samhljóða.
Liður 10
Samþykktir um úthlutun íbúða fyrir aldraða eru úreltar eftir starfsmannabreytingar á Nausti, niðurfellingar rekstrarnefndar Nausts og sameiningar Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps.
Nefndin óskar eftir áliti sveitarstjórnar á breytingum á „Samþykktum um úthlutun íbúða fyrir aldraða og öryrkja“. Upprunalegar samþykktir og breyttar samþykktir eru í gögnum.
Fundargerðin lögð fram
Til máls tóku: oddviti, sveitarstjóri, Þorsteinn, sveitarstjóri. Sigríður.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir nýjar úthlutunarreglur vegna úthlutunar á íbúðum fyrir aldraða og öryrkja.
Samþykkt samhljóða.
Liður 12.1
Nýr varamaður í velferðar- og fræðslunefnd. Valgerður Sæmundsdóttir hefur látið af störfum sem varamaður í nefndinni og hefur Árni Bragi Njálsson tekið hennar sæti sem varamaður.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að Árni Bragi Njálsson taki sæti Valgerðar Sæmundsdóttur sem varamaður í velferðar- og fræðslunefnd og tekur undir með nefndinni, þakkir til Valgerðar fyrir störf hennar og býður Árna Braga Njálsson velkominn til starfa.
Samþykkt samhljóða.
6. Tengir – beiðni um framkvæmdaleyfi vegna lagningar ljósleiðara um Hófaskarð frá 09.08.2024.
Tengir hefur sent beiðni um framkvæmdaleyfi vegna lagningar ljósleiðara um Hófaskarð. Leyfi hefur fengist frá landeigendum.
Til máls tóku: sveitarstjóri, Þorsteinn, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að veita leyfið og felur sveitarstjóra að svara erindinu.
Samþykkt samhljóða.
7. Verktakasamningur við Þórð Þórðarson vegna bílastæðis við Langanesveg 3.
07.1 Uppdráttur fyrir bílastæði norðan Langanesvegar 1
07.2 Viðauki vegna gerðar bílastæðis við Langanesveg
Í ráði er að gera bílastæði norðan Langanesvegar 1, samanber samþykkt skipulagsnefndar á 13. fundi 11.04.2023 og síðari umfjöllun þar sem komið yrði fyrir 4 hrað hleðslustöðvum. Málið hefur dregist þar sem fara þurfti fram á kvöð á lóðina Langanesveg 1 vegna aðkomu að stæðinu. Fyrir liggur samþykki um kvöð á lóðinni en eftir er að undirrita nýja lóðasamninga. Gerður hefur verið samningur við Þórð Þórðarson um að jarðvegsskipta á stæðinu og undirbúa undir bundið slitlag með fyrirvara um samþykki sveitarstjórnar.
Til máls tóku: sveitarstjóri, Þorsteinn, sveitarstjóri, Sigríður, sveitarstjóri, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samning og felur sveitarstjóra að undirrita hann. Ennfremur samþykkir sveitarstjórn viðauka við fjárhagsáætlun vegna verksins fyrir árið 2024 að fjárhæð 13.063.414.- m/vsk.
Samþykkt samhljóða.
8. Viðræður við eiganda nýrra húsa á Þórshöfn.
Sveitarstjóri hefur átt í viðræðum við eiganda nýs húss við Bakkaveg 7. Niðurstöður úr þeim viðræðum liggja fyrir í meðfylgjandi greinargerð.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, oddviti, Sigríður, Þorsteinn, sveitarstjóri, Þorsteinn, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að ganga frá kaupum nýs húss við Bakkaveg 7 í samræmi við meðfylgjandi greinagerð og leggja samninga fram í byggðaráði til staðfestingar. Jafnframt er sveitarstjóra falið að undirbúa það að Lækjarvegur 3 verði tilbúinn til sölu og afhendingar síðla árs 2026.
Atkvæðagreiðsla: Með bókun: Sigurður, Gunnlaugur, Helga, Sigríður. Á móti bókun: Þorsteinn, Júlíus.
Bókun fulltrúa L-lista: Fulltrúar L-lista telja það alls ekki forgangsmál fyrir sveitarfélagið að fjárfesta í einbýlishúsi ekki síst eins og lánamál eru í dag. Eins og staðan er í dag þá er ekki skortur á lausu húsnæði. Einnig er fyrirhugað er að koma upp fjórum 80 fm. íbúðum á Þórshöfn í samstarfi við Fasteignafélagið Brák en það félag mun eiga og reka þær íbúðir. Þá er ekki gert ráð fyrir slíkri fjárfestingu í fjárhagsáætlun þessa árs né þriggja ára áætlunum sveitarfélagsins. Fulltrúar L-lista hvetja meirihlutinn frekar að einbeita sér í að forgangsraða fjármunum sveitarfélagsins fyrir íbúa samfélagsins t.d. með því að laga skólalóðir, frekari framkvæmdir við Naust, viðhald í íþróttahúsi, aðstöðu fyrir félagsmiðstöð, eldri borgara o.s.frv.
9. Erindi frá Sóknarnefnd Þórshafnarkirkju.
Sóknarnefnd Þórshafnarkirkju hefur farið fram á styrk til kirkjunnar vegna nauðsynlegs viðhalds sem kosta munu um 2,5 milljónir króna.
Til máls tóku: Sigríður, Þorsteinn, oddviti, Þorsteinn,
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn leggur til 500.000 kr í styrk vegna viðhalds safnaðarheimilis.
Samþykkt samhljóða.
10. Umsögn um veitingu áfengisleyfis fyrir veitingastaðinn Holt.
Lögreglustjórinn á Norðurlandi hefur farið fram á umsögn vegna veitingu á vínveitingaleyfi fyrir veitingastaðinn Holt. Um er að ræða veitingu leyfis vegna lengingar opnunartíma virka daga, um helgar og aðfararnætur frídaga.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn heimilar fyrir sitt leyti lengri opnunartíma á virkum dögum til kl. 01 og um helgar og aðfararnætur frídaga til kl. 03 að því gefnu að öðrum skilyrðum fyrir veitingu leyfisins sé fullnægt.
Samþykkt samhljóða.
11. Flutningur á Fræ ehf. úr B hluta sveitarsjóðs í A hluta.
Með flutningi á fyrirtækinu Fræ ehf. yfir í A hluta sveitarsjóðs verða allir eignarhlutar sveitarfélagsins í öðrum félögum vistuð í A hluta.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að vista félagið Fræ ehf. kt. 500197-2939 í A hluta sveitarsjóðs.
Samþykkt samhljóða.
12. Framhald verkefnisins „Betri Bakkafjörður“ – starfsmaður
Hugmyndir um framhald verkefnisins „Betri Bakkafjörður“ þegar aðkomu Byggðastofnunar lýkur 2024/2025.
Til máls tóku: Oddviti, sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, Sigríður, oddviti, Þorsteinn, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram á þeim nótum sem það var rætt og hefur verið kynnt og taka aftur til umræðu hjá sveitarstjórn.
Samþykkt samhljóða.
13. Skýrsla sveitarstjóra.
Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.
Íbúar og gestir sem hafa sótt okkur heim hafa lýst yfir ánægju sinni með hve mikil umsvif hafa verið og eru í Langanesbyggð á þessu ári. Við héldum að okkur höndum í fyrra og framkvæmdir voru í lágmarki en nú í ár er áætlun upp á 372 milljónir í fjárfestingar og hingað til hafa allar framkvæmdir verið með eigið fé og eingöngu stöku daga þurft að draga á lánalínu. Hvarvetna sem litið er, standa yfir framkvæmdir og vinna við viðhald. Þann 30 ágúst lýkur framkvæmdum við fyrri áfanga á Nausti. Nokkrar tafir urðu á framkvæmdum vegna meiri öryggiskrafna, veðurs og tafa á afhendingu efnis. Flutt var inn í efri hæðina í júlí. Framkvæmdin hefur farið örlítið fram úr áætlun vegna þessa og nákvæmar tölur munu liggja fyrir við verklok. Nú þegar er hafinn undirbúningur að öðrum áfanga en við höfum fengið framlag úr framkvæmdasjóði aldraðra sem nemur um 100 milljónum fyrir báða áfanga, helmingur greiddur út við upphaf framkvæmda og helmingur í lok. Mikil ánægja ríkir meðal starfsmanna og vistmanna með breytingarnar og rýnihópur hefur þegar hafið störf við að skoða 2. áfanga.
Gerð móttökustöðvar fyrir sorp og endurskipulagning sorpmála gengur vel og stefnt að því að nýtt skipulag taki gildi um áramótin 2024 og 2025 og í árslok 2025 vænti ég þess að full reynsla og jafnvægi tekna og gjalda verði komið á það, þannig að samfélagið spari 30-40 milljónir króna á ári í sorpmálum með því að tekjur verða jafnar útgjöldum. Það er ánægjulegt að segja frá því að ég átti góðan fund með sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps um ýmis sameiginleg mál og þar kom fram hugmynd um að umhverfisfulltrúi vinni að því að finna sameiginlegan flöt t.d. á sorpmálum og á hvaða grunni við gætum unnið meira saman. Þessar hugmyndir eru auðvitað viðraðar með þeim fyrirvara að sveitarstjórnir Vopnafjarðarhrepps og Langanesbyggðar samþykki þegar þar að kemur að umhverfisfulltrúi vinni að því að finna þennan flöt og að Vopnafjarðarhreppur greiði hluta af hans launum.
Í gatnagerð erum við að hefja framkvæmdir við 200m gangstétt meðfram Miðholti að norðanverðu og á Bakkafirði meðfram Hafnargötunni. Nú eru að hefjast framkvæmdir við nýtt bílastæði norðan Langanesvegar 1 með hraðhleðslustöðvum.
Nýr veitingastaður opnaði fyrir skömmu í Félagsheimilinu Þórsveri og ég hef sjaldan fengið jafn góð viðbrögð íbúa eins og við þeim breytingum sem gerðar voru og að við höfum fengið góðan, vandaðan og vel heppnaðan veitingastað. Karen Konráðsdóttir á mikið hrós skilið fyrir framtakið og dugnaðinn við að koma staðnum á laggirnar. Ég þekki af eigin raun að það er mikil vinna og átak að leggja í slíka vegferð.
Það sér fyrir endann á þeim framkvæmdum við höfnina sem sveitarstjórn heimilaði að taka þátt í og eru innan gildandi aðalskipulags. Vegagerðin mun standa við sinn hluta varðandi greiðsluþátttöku í dýpkun og gerð grjótvarnargarðs við fyllingu ásamt því að gera við ysta hluta Norðurgarðs. Framhaldið ræðst svo af viðræðum við Vegagerðina og ísfélagið.
Viðræður við Björgunvarsveitina vegna kaupa á Hauksbúð vegna nýrrar aðkomu að höfninni eru langt komnar og Björgunarsveitin hefur komið með athyglisverðar hugmyndir varðandi þau kaup sem gert verður grein fyrir þegar þeim lýkur innan skamms.
Ennfremur er verið að móta hugmyndir um framtíðarskipan verkefnisins „Betri Bakkafjörður“. Við fengum framlengingu fyrir þetta ár og þetta er orðið lengsta verkefni Byggðastofnunar í „Brothættum byggðum“. Þannig að það er kannski ekki keppikefli að fá verkefnið framlengt. Við þurfum að líta á byggðaþróun Langanesstrandar og Bakkafjarðar sem viðvarandi verkefni frekar en átaksverkefni og móta það áfram.
Staða sýslufulltrúa á Þórshöfn er eins og fyrri ár óljós en við höfum undirbúið jarðveginn eins og við höfum alltaf gert og munum herja á fjárlaganefnd og dómsmálaráðuneytið um framhald á því að þetta starf verði hér til frambúðar.
Ljósleiðaravæðing Þórshafnar gengur vel og gert ráð fyrir að um helmingur þéttbýlisins verði tengdur á þessu ári og verkinu lokið á næsta ári. Það voru einnig gleðitíðindi að Tengir ætlar að koma upp sendi í Hófaskarði fyrir GSM og Tetra fyrir veturinn.
Umræða hefur verið um að íbúum í Langanesbyggð hafi fækkað umtalsvert frá árinu 2021 og í því efni höfðum í sjálfu sér ekkert að byggja á annað en opinberar tölur sem við birtum á sínum tíma. Sannleikurinn í þessu er þó sá, að þegar fjöldi Íslendinga nálgaðist 400 þúsund gerði Þjóðskrá átak í að afskrá þá íbúa sem höfðu haft stutta viðdvöl á Íslandi og verið við vinnu. Við þetta átak fækkaði skráðum íbúum á landinu niður í 383 þúsund eða um rúmlega 15.300 og hér í Langanesbyggð fóru 26 af skrá vegna þessa. Þessar tölur voru leiðréttar nokkur ár aftur í tímann. Réttar tölur í dag, eru því að 1. janúar s.l. voru íbúar 580 en 1. ágúst s.l. voru íbúar 596 samkvæmt nýbirtum upplýsingum frá þjóðskrá og fjölgunin hér í Langanesbyggð á þessu ári frá janúar til ágúst því 2,8% en fjölgun á landsvísu er á sama tíma 1,8%.
Nú erum við að hefja undirbúning að milliuppgjöri og ég hef aðeins verið að skoða deildirnar og í heildina er útlitið gott fyrir árið. Sem dæmi þá sýnist mér er til að mynda að rekstur Íþróttamiðstöðvar sé vel undir áætlun hingað til miðað við 2023 eða sem nemur 5 milljónum króna. Nýtt skipurit miðstöðvarinnar verður lagt fyrir byggðaráð til umfjöllunar á næsta fundi ráðsins.
Það eru mikil umsvif eins og ég sagði í upphafi og við horfum björtum augum til framtíðar. Í því sambandi verð ég að minnast á að við höfum á að skipa fábæru starfsfólki í stjórnsýslu sveitarfélagsins sem leggur sig verulega fram um að skapa okkur betra samfélag. Ég vil einnig minnast á frábært starf sem unnið er í Kistunni undir forystu Sigríðar Friðnýjar og störf Gunnars Más að innviðamálum í sveitarfélaginu að ógeymdri Romi sem hefur verið verkefnastjóri „Betri Bakkafjarðar“. Hjá þessum verkefnastjórum hefur verkefnum miðað vel áfram og ýmislegt væri hægt að tíunda í því efni. Ég er óendanlega þakklátur fyrir að fá að vinna með þessu fólki og ber mikla virðingu fyrir elju þess, dugnaði og útsjónarsemi – og læt það óspart í ljós við öll tækifæri.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16:48.