37. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
37. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 17. október 2024. Fundur settur kl. 16:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Þórarinn J .Þórisson, Júlíus Þröstur Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Margrét Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Björn S .Lárusson sveitarstjóri og Svala Sævarsdóttir sem ritaði fundargerð.
Egill Gautason mætti á Teams til að gera grein fyrir 1. lið og svara spurningum.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki svo gengið var til dagskrár.
D a g s k r á
1. SVÓT greining í landbúnaði í Langanesbyggð og Norðurþingi
2. Fundargerð 952. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 27.09.2024
3. Fundargerð 31 fundar byggðaráðs
4. Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2025, vinnuáætlun
04.1 Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2025-2028 frá Samb. ísl. sveitarf.
04.2 Bréf frá Eftirlitsnefnd sveitarfélaga 01.10.2024
5. Fundargerð 32. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 24.09.2024
6. Fundargerð 33. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 08.10.2024
7. Fundargerð 20. fundar velferðar- og fræðslunefndar 07.10.2024
8. Fundargerð 16. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 01.10.2024
9. Erindi frá Karítas Ósk Agnarsdóttur um lausn frá störfum.
10. Kynning á HSÞ
10.1 Ársskýrsla HSÞ fyrir árið 2023
10.2 Ósk um endurnýjun rekstrarsamnings við HSÞ
11. Ársreikningur Fræ ehf. fyrir árið 2023
12. Bréf til sveitarstjórnar með ósk um styrk frá „Okkar heimur“.
13. Skýrsla sveitarstjóra
Fundargerð
1. SVÓT greining í landbúnaði í Langanesbyggð og Norðurþingi.
Egill Gautason höfundur greiningarinnar sagði frá henni og svaraði spurningum.
Til máls tók Mirjam Blekkenhorst.
Greiningin lögð fram.
2. Fundargerð 952. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga 27.09.2024
Fundargerðin lögð fram.
3. Fundargerð 31 fundar byggðaráðs
Fundargerðin lögð fram
4. Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun 2026-2028, vinnuáætlun
Lögð fram áætlun sveitarstjórnar, byggðaráðs og deildarstjóra ásamt starfsfólki vegna vinnu við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun.
Áætlunin lögð fram.
04.1 Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2025-2028 frá Samb. ísl. sveitarf.
Lagt fram minnisblað frá greiningarteymi þróunarsviðs Sambands ísl. sveitarfélaga um forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2025 og 2026-2028.
Lagt fram til kynningar
04.2 Bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga 01.10.2024
Fjallað er um fjárhagsleg viðmið og önnur viðmið eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga (A-hluti). Sveitarfélagið uppfyllir öll viðmið fyrir árið 2023 fyrir utan skuldahlutfall A hluta sem var 102,2% en háamark samkvæmt viðmiðunum er 100%
Lagt fram til kynningar.
Til máls tók Björn S. Lárusson og kynnti þessa liði.
5. Fundargerð 32. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 24.09.2024
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð 33. fundar skipulags- og umhverfisnefndar 08.10.2024
Fundargerðin lögð fram.
7. Fundargerð 20. fundar velferðar- og fræðslunefndar 07.10.2024
Fundargerðin lögð fram.
8. Fundargerð 16. fundar atvinnu- og nýsköpunarnefndar 01.10.2024
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tók Mirjam Blekkenhorst.
9. Erindi frá Karítas Ósk Agnarsdóttur um lausn frá störfum.
Bréf frá Karítas Ósk Agnarsdóttur þar sem hún óskar eftir lausn frá störfum í sveitarstjórn og öðrum nefndum og vinnuhópum á vegum Langanesbyggðar.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að verða við ósk um lausn frá störfum og þakkar henni jafnframt fyrir vel unnin störf fyrir sveitarfélagið. Varamenn taka sæti í nefndum samkvæmt röð þar til aðrar tilnefningar koma fram.
Til máls tóku Þórarinn J .Þórisson, Björn S. Lárusson og Sigurður Þór Guðmundsson.
Samþykkt samhljóða.
10. Kynning á HSÞ
Kynning á starfsemi HSÞ
Lögð fram til kynningar.
10.1 Ársskýrsla HSÞ fyrir árið 2023
Ársskýrsla HSÞ fyrir árið 2023 lögð fram ásamt ársreikningi fyrir rekstrarárið 2023 með rekstrar og efnahagsreikningi.
Lagt fram til kynningar
10.2 Ósk um endurnýjun rekstrarsamnings við HSÞ
Lögð fram ósk frá HSÞ um fund með sveitarstjórn þar sem rædd verða málefni HSÞ og drög að nýjum rekstrarsamningi á milli sveitarfélagsins og HSÞ.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur byggðaráði að ræða við HSÞ um erindið og gera sveitarstjórn grein fyrir niðurstöðum fundarins.
Samþykkt samhljóða.
11. Ársreikningur Fræ ehf. fyrir árið 2023
Á árinu 2024 seldi Fræ ehf. hlut sinn í Skör ehf. og Ytra Lóni ehf. auk þess sem samþykkt hefur verið að leggja niður félagið Drekasvæðið ehf. sem er sameign Langanesbyggðar og Vopnafjarðarhrepps.
Á 34 fundi sveitarstjórnar 22. ágúst s.l. var samþykkt að flytja félagið Fræ ehf. úr B hluta sveitarsjóðs í A hluta sveitarsjóðs sem er hluti af því verki sem hafið var í upphafi kjörtímabilsins, að taka fyrirtæki út úr B hluta sem voru með litla eða enga starfsemi, leggja þau niður, selja eða færa yfir í A sjóð.
Ársreikningurinn lagður fram.
Til máls tók Björn S. Lárusson.
12. Bréf til sveitarstjórnar með ósk um styrk frá „Okkar heimur“.
Til stendur að koma á úrræði (fjölskyldusmiðju) fyrir börn foreldra með geðrænan vanda/geðsjúkdóma á norður- og austurlandi. Leitað er eftir stuðningi við verkefnið frá sveitarfélögum. Í bréfinu kemur fram að vonast er til að fá stuðning frá Akureyrarbæ að upphæð kr. 50.000.-
Bókun um afgreiðslu: Þökkum góða kynningu en Langanesbyggð mun ekki styrkja verkefnið að sinni.
Samþykkt samhljóða.
13. Heimild til lántöku
Sveitarstjóri fer fram á heimild sveitarstjórnar til skammtíma lántöku vegna framkvæmda sem tilgreindar eru í fylgiskjali með þeim viðaukum sem hafa verið samþykktir í sveitarstjórn.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn heimilar að hækka yfirdráttarheimild í Landsbankanum úr 60 milljónir í 100 milljónir, er það í samræmi við fjárhagsáætlun 2024 sem gerir ráð fyrir skammtímafjármögnun fram að áramótum 2024/2025 að upphæð 90 milljónir.
Til máls tóku Björn S. Lárusson, Mirjam Blekkenhorst og Sigurður Þór Guðmundsson.
Samþykkt með fjórum atkvæðum Sigurðar Þórs Guðmundssonar, Halldóru Jóhönnu Friðbergsdóttur, Gunnlaugs Steinarssonar og Margrétar Guðmundsdóttur. Hjá sátu Þórarinn J. Þórisson, Júlíus Þröstur Sigurbjartsson og Mirjam Blekkenhorst sem jafnframt gerði grein fyrir atkvæðum L-lista með eftirfarandi bókun:
Bókun fulltrúa L-lista: Ástæðan fyrir hjásetu fulltrúa L-lista í þessu máli er að þarna er verið að óska eftir heimild til lántöku vegna mála sem fulltrúar L-lista hafa hafnað á öllum fyrri stigum. Það sem gerir málið flókið er að í gögnum eru tvinnuð saman fimm mál (viðaukar) og óskað eftir lántöku fyrir þeim öllum. Þrjú málanna erum við sammála um að framkvæma og höfum samþykkt á fyrri stingum en tvö málanna erum við það alls ekki. Þau mál sem við erum ekki sammála um eru mál vegna hafnarframkvæmda fyrir Ísfélagið og kaup á einbýlishúsi í Bakkavegi af fyrirtækinu Dawid smiður ehf.
Það er mat fulltrúa L-lista að ekki hefði þurfi að taka viðbótarlán (yfirdrátt) vegna framkvæmda sem sameiginleg sátt var um.
Meirihlutinn hefði átt að standa betur í lappirnar og gætt almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna í fyrrnefndum hafnarframkvæmdum og fara aðrar kostnaðarminni leið í húsnæðismálum eins og t.d. að klára samninga við Brák um uppbyggingu íbúða á Þórshöfn. Þarna er almannafé illa varið sem hefði getað nýst í innviði sem nýtast samfélaginu og íbúum þess s.s. viðhald á íþróttahúsi, endurbættar leik- og grunnskólalóðir, bætta aðstöðu slökkviðliðs, aðstöðu fyrir félagsmiðstöð og félag eldri borgara, frekari stuðningur við félagasamtök og margt fleira.
14. Skýrsla sveitarstjóra
Hr. oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.
Við höfum hingað til verið með lánalínu í Landsbankanum að upphæð 60 milljónir sem við höfum lítið þurft á að halda hingað til og ekki dregið á hana nema dag og dag þegar lausafjárstaða hefur verið þannig að grípa hefur þurft til hennar. Þessi lánalína er vaxtalaus á meðan ekki er dregið á hana. Nú stöndum við frammi fyrir því að greiða ýmsar fjárfestingar sem bæði voru á fjárhagsáætlun og bætt var við með viðaukum þannig að farið var farið fram á að lánalínan yrði hækkuð tímabundið til áramóta til að mæta þessum útgjöldum.
Við eigum hinsvegar eftir að fá umtalsverðar upphæðir greiddar undir lok árs, meðal annars framlag vegna sameiningar og seinni greiðslu vegna 1 áfanga endurbóta á Nausti. Þannig vonast ég til að við getum greitt upp lánalínuna að mestu fyrir áramót. Fjárhagsstaða sveitarfélaga er sveiflukennd og ræðst af ýmsum þáttum, ekki síst í okkar samfélagi sem byggir að mestu leiti á sjávarútvegi. Slæmar horfur í loðnuveiðum við fyrstu rannsóknir lofa ekki góðu um vertíðina í ár en auðvitað vonumst við til að frekari rannsóknir muni leiða annað í ljós.
Staða sveitarsjóðs er hinsvegar mjög góð eins og lesa má úr bréfi Eftirlitsnefndar sveitarfélaga og í síðasta ársreikningi. Staða yfir 40 sveitarfélaga er þannig að þau eru rekin án afgangs af rekstrarreikningi og yfir 30 fengu áminningarbréf frá Eftirlitsnefndinni. Við vorum ekki meðal þeirra. Ýmsar tilfærslur úr eignasjóði yfir í sveitarsjóð og sala fyrirtækja munu einnig laga stöðuna, en frekari tiltektar er þörf. Í því sambandi erum að vinna í því að leggja niður fyrirtækið Drekasvæðið sem ekki þjónar tilgangi sínum lengur. Mestu munar þó um að við flytjum fyrirtækið Fræ ehf. inn í sveitarsjóð þannig að skuldastaða á milli A og B sjóðs batnar en það er auðvitað bókhaldsatriði. Hvað við svo gerum við fyrirtækið í framhaldinu ræðst af því hvað endurskoðandi ráðleggur í því sambandi.
Spurningar sem bárust frá L- lista í gær varðandi bréf EFS og samanburðar á ársreikningum eru eðlilegar þar sem sveitarstjórnarfulltrúar þurfa að vera upplýstir á hverjum tíma um stöðu mála. Ég taldi mig geta svarað annarri þeirra á þessum fundi munnlega í umræðum um bréfið en hin spurningin verður að bíða aðeins betri tíma þó L-listinn hafi ekki tiltekið neinn frest á að fá svar. Ég setti hinsvegar inn í dagskrá skýringar á þeim lykiltölum sem koma fram í bréfi EFS. Það er einfaldlega mín stefna að svara spurningum eins fljótt og auðið er, því í lang flestum tilfellum liggja allar upplýsingar fyrir og aðeins þarf að koma þeim á skiljanleg form og koma svarinu fram svo umræða um þær gleymist ekki. Í vinnuskjali varðandi spurningu b) sem ég hef alltaf búið til hef ég sett fram helstu lykiltölur til að átta mig betur á stöðu mála hverju sinni en ég þarf setja upp A og B sjóð saman og taka A sjóð sérstaklega út úr. Ég get þó fullyrt að í því vinnuskjaliu eru allar lykiltölur á uppleið og jákvæðar þegar horft er til þróunar afkomu sveitarsjóðs eins og ég kom áður inn á.
Verkefnastjóri Kistunnar hefur sent tölvupóst til sveitarstjóra og annarra sem eiga hlut að máli vegna rekstursins og beiðni um að koma honum í fast form. Ég hef undanfarið leitað álits endurskoðanda um hvernig við leysum það mál með tilliti til sjálfstæðis stofnunarinnar og ábyrgðar. Í uppbyggingafasa stofnunarinnar voru ýmsar útfærslur viðraðar en sumar ganga einfaldlega ekki upp sökum tengsla á milli sveitarfélagsins og Kistunnar. Ég hef beðið endurskoðanda að benda á leiðir til að efla sjálfstæði hennar og þar með hvar ábyrgðin liggur þó endanlega sé hún hjá sveitarfélaginu þar sem Kistan er að fullu í eigu sveitarfélagsins en reksturinn útvistaður að hluta til Þekkingarnets Þingeyinga.
Nú fer í hönd fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2025. Áætlun hefur verið sett fram um hvernig hún verður unnin og var lögð fram hér á fundinum. Auðvitað geta slíkar áætlanir tekið breytingum en við fyrstu sýn og óskir frá deildarstjórum er ljóst að skera þarf niður af þeim óskum sem lagðar hafa verið fram, einkum vegna óvissu í efnahagsmálum við fall ríkisstjórnarinnar og þeirrar óvissu sem gætir í ríkisfjármálum og þar með fjármálum sveitarfélaga. Stærsta fjárfestingin er síðari hluti endurbóta og nýbyggingar á Nausti og við eigum eftir að finna út hvernig við stöndum að því, hvort þær framkvæmdir deilist á eitt eða tvö ár. Það fer eftir efnahag hvernig við stöndum að því. Ég ætla þó að vona að við þurfum ekki á einhverjum lántökum að halda vegna framkvæmda eða viðhalds og reynum að halda okkur við það.
Að lokum. Á næstu dögum er væntanlegt sorpflokkunarhús á þann grunn sem búið er að steypa á athafnarsvæði og þá getum við farið að skipuleggja betur þá starfsemi sem verður í húsinu samkvæmt þarfagreiningu sem gerð var fyrir húsið. Ljóst er að nokkuð af tækjum þarf að kaupa til að virkja þá starfsemi sem verður þar og við stefnum enn að því að breytingar í sorpmálum taki gildi um eða eftir áramót. Með þeim breytingum ættu að sparast tugir milljóna sem við höfum greitt með sorpmálum undanfarin ár.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:29.