Fara í efni

38. fundur sveitarstjórnar

21.11.2024 16:00

Fundur í sveitarstjórn

38. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 21. nóvember 2024. Fundur settur kl. 16:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Þorsteinn Ægir Egilsson, Júlíus Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Margrét Guðmundsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir, Björn S. Lárusson, sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Einnig sátu fundinn:
Sigríður Friðný Halldórsdóttir undir 1. lið í fjarveru Halldóru J. Friðbergsdóttur.
Þórarinn J. Þórisson undir 16. og 17. liðum í stað Þorsteins Ægis Egilssonar sem lýsti yfir vanhæfi sínu undir þeim lið.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki og gengið var til dagskrár.

D a g s k r á

1. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun.
2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 953 frá 25.10.2024.
3. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 954 frá 4.11.2024
4. Gjaldskrár og útsvar – endurskoðuð tillaga
5. Fundargerð 32. fundar byggðaráðs frá 31.10.2024
     05.1 Samningur við HSÞ
     05.2 Innkaupareglur og innkaupastefna
6. Fundargerð 34. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 29.10.2024
7. Fundargerð 35. fundar skipulags og umhverfisnefndar frá 05.11.2024
     07.1 Erindi – Tunguárvirkjun 04.11.2024
     07.2 Kynning á hugsanlegum virkjunarframkvæmdum við Staðará
     07.3 Bókun skipulagsnefndar um erindið varðandi Tunguá.
8. Fundargerð 36. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 11.11.2024
9. Fundargerð 14. fundar stjórnar Jarðasjóðs frá 22.10.2024
10. Fundargerð 12. fundar hafnarnefndar frá 06.11.2024
11. Árétting vegna bréfs EFS – Langanesbyggð 22.10.2024
12. Fjárfestingafélag Þingeyinga Ársreikningur fyrir 2023 ásamt áformum félagins um hluthafalán til Mýsköpunar.
     12.1 Samþykktir Fjárfestingafélags Þingeyinga.
     12.2 Fundargerð stjórnar Fjárfestingafélags Þingeyinga 28.10.2024
     12.3 Bréf til hluthafa Mýsköpunar með beiðni um hluthafalán.
     12.4 Kynning fyrir hluthafa Mýsköpunar.
13. Erindi til sveitarstjórna á starfssvæði SSNE um sóknaráætlun NE 2025-2029
     13.1 Kynning á sóknaráætlun NE 2025-2029 útgáfa des 2024 útgáfa 1.0
14. Tillaga til sveitarstjórnar um kjörstaði í Alþingiskosningum 30. nóvember.
15. Veiting vínveitingleyfis fyrir veitingastaðinn Holtið. Framlengdur opnunartími.
16. Erindi frá Þorsteini Ægi Egilssyni, beiðni um lausn frá störfum.
17. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fyrri umræða um fjárhagsáætlun.
Sveitarstjóri gerði grein fyrir fjárhagsáætlun 2025, útkomuspá fyrir 2024 og þriggja ára áætlun.

Til máls tóku: Þorsteinn, Mirjam, sveitarstjóri, oddviti, Mirjam, oddviti, Þorsteinn, oddviti, sveitarstjóri, Sigríður, Þorsteinn, Mirjam, sveitarstjóri, Sigríður.

Bókun um afgreiðslu: Fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun vísað til 2. umræðu í sveitarstjórn sem verður 12. desember.

Samþykkt samhljóða.

2. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 953 frá 25.10.2024.
Sveitastjórn Langanesbyggðar tekur heilshugar undir bókun í 9. lið og gerir að sinni.

Fundagerðin lögð fram.

Bókun um afgreiðslu: Langanesbyggð tekur undir bókun stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga sem kveður á um að leggja þurfi áherslu á að Hafrannsóknarstofnun verði fjárhagslega undir það búin að fara í öflugar bergmálsmælingar í byrjun næsta árs til að hægt sé að ganga úr skugga um hvort ekki sé hægt að heimila þessar þjóðhagslega mikilvægu veiðar. Það er skýlaus krafa sjávarbyggða á Íslandi að ríkisvaldið sjái til þess að jafn mikilvæg stofnun og Hafrannsóknarstofnun sé fullfjármögnuð og gert kleift að halda úti öflugum rannsóknum á fiskistofnum þjóðarinnar til að hægt sé að tryggja sjálfbærar veiðar sem skipta sköpum fyrir íslenskt efnahagslíf.

Samþykkt samhljóða.

3. Fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga nr. 954 frá 4.11.2024
Fundargerðin lögð fram

4. Gjaldskrár og útsvar – tillaga
Lagðar fram tillögur að gjaldskrám fyrir árið 2025 ásamt tillögu að útsvarsprósentu.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að almenn hækkun á gjaldskrám sem beint tengjast útgjöldum barnafjölskyldna verði 3,5% en aðrar gjaldskrár hækka um 5,5%. Útsvarsprósenta verður óbreytt eða 14,97%. Gjaldskrár samkvæmt þessari ákvörðun verða lagðar fram við síðari umræðu um fjárhagsáætlun 12. desember n.k.

Samþykkt samhljóða.

5. Fundargerð 32. fundar byggðaráðs frá 31.10.2024
      05.1 Samningur við HSÞ
Byggðaráði var falið að ræða við HSÞ og gera sveitarstjórn grein fyrir niðurstöðum. Fulltrúar HSÞ mættu á fund með byggðaráði 31.10.2024 þar sem lögð voru drög að meðfylgjandi samningi.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að undirrita hann.

Samþykkt samhljóða.

05.3 Innkaupareglur og innkaupastefna
Lögð fram drög að breytingum á innkaupareglum og ný innkaupastefna.

Til máls tóku: Mirjam, oddviti, Halldóra, oddviti, Mirjam, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir innkaupareglur og innkaupastefnu með áorðnum breytingum frá byggðaráð.

Samþykkt samhljóða.

6. Fundargerð 34. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 29.10.2024
Fundargerðin lögð fram

7. Fundargerð 35. fundar skipulags og umhverfisnefndar frá 05.11.2024
     07.1 Liður 6; Erindi – Tunguárvirkjun 04.11.2024
Lögð fram ósk um skipulagsgerð vegna áforma um virkjun Tunguár í Þistilfirði. Skipulags og umhverfisnefnd hefur fjallað um málið og fylgir bókun nefndarinnar hér sem liður 07.2.
     07.3 Bókun skipulagsnefndar um erindið.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn heimilar umsækjanda að leggja fram skipulagslýsingu vegna breytinga á aðalskipulagi og vegna nýs deiliskipulags, skv. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

8. Fundargerð 36. fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 11.11.2024
     08.1 liður 6: Kynning á hugsanlegum virkjunarframkvæmdum við Staðará
Artic Hydro hefur lagt fram kynningu á virkjanamöguleika í Staðará í landi Skeggjastaða. Forsvarsmenn Artic Hydro óska eftir áliti sveitarstjórnar á þessum áformum. Áformin voru kynnt á 36 fundi, aukafundi skipulags- og umhverfisnefndar undir önnur mál án þess að bókað væri um áformin.

Til máls tóku: sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitastjórn er almennt hlynnt nýtingu fallvatna til orkuframleiðslu og hefur á þessu stigi málsins engar forsendur til að leggjast gegn möguleikanum og telur hann jafnvel áhugaverðan. Minnum hinsvegar á Draugafoss sem áfangastað og merkilegt kennileiti.

Samþykkt samhljóða.

9. Fundargerð 14. fundar stjórnar Jarðasjóðs frá 22.10.2024
Fundargerðin lögð fram

10. Fundargerð 12. fundar hafnarnefndar frá 06.11.2024
Fundargerðin lögð fram

11. Árétting vegna bréfs EFS – Langanesbyggð 22.10.2024
Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur sent áréttingu vegna bréfs sem sent var sveitarfélaginu 1.10.2024. Svar við bréfinu virðist ekki hafa borist eftirlitsnefndinni en formaður nefndarinnar hefur nú staðfest móttöku svarsins.

12. Fjárfestingafélag Þingeyinga Ársreikningur fyrir 2023 ásamt áformum félagsins um hluthafalán til Mýsköpunar.
     12.1 Samþykktir Fjárfestingafélags Þingeyinga.
     12.2 Fundargerð stjórnar Fjárfestingafélags Þingeyinga 28.10.2024
Fundargerðin lögð fram.
     12.3 Bréf til hluthafa Mýsköpunar með beiðni um hluthafalán.
     12.4 Kynning fyrir hluthafa Mýsköpunar.
     12.5 Tölvupóstur vegna hluthafaláns.

Farið er fram á að Langanesbyggð verði við óskum stjórnar Fjárfestingafélags Þingeyinga um hluthafalán, sem greitt yrði til Mýsköpunar til að brúa bil þar til samið hefur verið við Byggðastofnun um hlutafé til félagsins Mýsköpun. Í heild er óskað eftir hluthafaláni að fjárhæð 8 milljónir króna og hlutur Langanesbyggðar í því yrði 1.394.872.- Takist ekki samningar við Byggðastofnun verður hluthafaláninu breytt í hlutafé í Fjárfestingafélagi Þingeyinga.

Til máls tóku: sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að lána Fjárfestingafélagi Þingeyinga hluthafalán að upphæð 1.394.872.- Heildarlán hluthafa er kr. 8 milljónir króna.

Samþykkt samhljóða.

13. Erindi til sveitarstjórna á starfssvæði SSNE um sóknaráætlun NE 2025-2029
     13.1 Kynning á sóknaráætlun NE 2025-2029 útgáfa des 2024 1.0
Lögð fram drög að Sóknaráætlun NE 2025-2029 til umfjöllunar. Óskað er eftir því að athugasemdir berist í síðasta lagi 6. desember 2024.

Til máls tóku: sveitarstjóri, oddviti, Þorsteinn, Halldóra, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við drögin.

Samþykkt samhljóða.

14. Tillaga til sveitarstjórnar um kjörstaði.
Lagt er til við sveitarstjórn að kjörstaðir við Alþingiskosningar 30. nóvember verði 3:
     a) Á Þórshöfn, þeir sem hafa heimilisfang í póstnúmeri 680
     b) Á Bakkafirði, þeir sem hafa heimilisfang í póstnúmerum 685 og 686
     c) Á Svalbarði í Þistilfirði. Þeir sem hafa heimilisfang í póstnúmeri 681
Yfirkjörstjórn mun birta auglýsingu 22. nóvember um kjörstaði.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillögu sveitarstjóra sem lögð er fram í samráði við formann yfirkjörstjórnar.

Samþykkt samhljóða.

15. Veiting vínveitingleyfis fyrir veitingastaðinn Holtið. Framlengdur opnunartími.
Sveitarstjóri hefur lagt fram meðfylgjandi drög að svarbréfi til lögreglustjórans á NE vegna umsóknar um veitingaleyfi fyrir veitingastaðinn Holtið með framlengdu vínveitingaleyfi.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir efni bréfsins og felur sveitarstjóra að senda það fyrir hönd sveitarstjórnar til viðkomandi yfirvalda.

Samþykkt samhljóða.

16. Erindi frá Þorsteini Ægi Egilssyni, beiðni um lausn frá störfum.
Þorsteinn lýsti yfir vanhæfi sínu undir þessum lið og vék af fundi, í hans stað kom Þórarinn J. Þórisson.

Vanhæfi samþykkt samhljóða.

Þorsteinn Ægir Egilsson oddviti L-listans hefur sent erindi til sveitarstjórnar þar sem hann óskar eftir því að vera leystur frá störfum í sveitarstjórn og öllum öðrum trúnaðarstörfum sem hann gegnir á vegum sveitarfélagsins frá og með 21. nóvember 2024 og til loka kjörtímabilsins af heilsufarsástæðum.
Með bréfi Þorsteins fylgir skjal frá fulltrúum L-lista um breytingar á skipan fulltrúa L – listans í sveitarstjórn og nefndum Langanesbyggðar í kjörfar beiðninnar og brotthvarfs tveggja annarra fulltrúa af L - lista.

Til máls tóku: Mirjam, Þórarinn, Mirjam, Halldóra, sveitarstjóri, Júlíus, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að veita Þorsteini Ægi Egilssyni lausn frá sveitarstjórn og öðrum trúnaðarstörfum.

Samþykkt samhljóða.

Oddviti listans verður: Júlíus Þröstur Sigurbjartsson.
Samþykkt samhljóða.

Fulltrúar L-lista í sveitarstjórn verða:
Aðalfulltrúar:
1. Júlíus Þröstur Sigurbjartsson.
2. Mirjam Blekkenhorst
3. Þórarinn J Þórisson
Varafulltrúar:
1. Árni Bragi Njálsson
2. María Valgerður Jónsdóttir
3. Halldór Rúnar Stefánsson

Samþykkt samhljóða.

Fulltrúar í byggðaráði verða:
Aðalfulltrúi:
1. Júlíus Þröstur Sigurbjartsson
Varafulltrúi:
1. Mirjam Blekkenhorst

Samþykkt samhljóða.

Fulltrúi í skipulags- og umhverfisnefnd verður
Aðalfulltrúi
1. Þorsteinn Vilberg Þórisson varaformaður
Varafulltrúi:
1. Jósteinn Hermundsson

Samþykkt samhljóða.

Fulltrúi í stjórn SSNE verður:
1. Mirjam Blekkenhorst

Samþykkt samhljóða.

Fulltrúi í vinnuhópi vegna stjórnsýsluúttektar verður:
1. Þórarinn J. Þórisson

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: Mirjam, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn þakkar Þorsteini Ægi Egilssyni fyrir störf hans og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Samþykkt samhljóða.

17. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti og ágæta sveitarstjórnarfólk.
Við höfum nú vísað fjárhagsáætlun næsta árs til annarrar umræðu sem verður þann 12 desember. Það er margt í þessari áætlun sem vert er að huga að þó ég ætli í sjálfu sér ekki að hafa mörg orð um áætlunina sjálfa núna á þessu stigi umfram það sem ég kom inná þegar ég fylgdi áætluninni úr hlaði. Verkefnastjóri KPMG kynnti fyrir aðal- og varamönnum í sveitarstjórn áætlunina eins og hún liggur fyrir á vinnufundi s.l. mánudag.
Á þessu ári voru fjárfestingar eru mjög miklar eða nettó um 323 milljónir og nánast á áætlun, enda ekki vanþörf á því, þar sem við héldum að okkur höndum á árinu 2023 á meðan mesta holskefla verðbólgu og vaxtahækkana reið yfir. Við hófum þó endurbætur á Nausti með fyrri áfanga árið 2023 og lukum þeim í september í ár þannig að meginþunginn var á þessu ári. En þess ber þó að geta að við fengum til þess framlag til beggja áfanga samtals um 110 milljónir af um 150 milljónum á árunum 2023 og 2024 en gert er ráð fyrir 218 milljónum 2025 og 2026. Þetta er nettófjárfesting upp á 258 milljónir króna á 4 árum að frádregnu framlagi frá framkvæmdasjóði aldraðra. Framkvæmdir við annan áfanga hefjast á næsta ári og þetta bætir aðstöðu til muna og nú bæði fyrir vistmenn og starfsfólk. Í þá framkvæmd fara um 100 milljónir króna á næsta ári og 118 milljónir á árinu 2026.
Við höfum hafið af krafti endurskipulagningu sorpmála sem þegar hefur skilað því í ár, að í stað þess að stöðugt stæðu sorpgjöld undir minna hlutfalli af kostnaðinum hillir nú undir og við stefnum að því að ná jafnvægi tekna og gjalda ekki síðar en á árinu 2026.

Útsvarstekjur Langanesbyggðar eru alltaf sveiflukenndar yfir árið. Út frá þeim tekjum eingöngu er mjög erfitt að taka punktstöður á sveitarsjóði einhvern mánuð. Það verður alltaf að líta á heildina. Þar ræður hvað mestu hvernig vertíð þróast, hvort loðna eða makríll veiðist og þar af leiðandi hver umsvifin eru í samfélaginu og áhyggjuefni ef ekki verður af þeim veiðum á núverandi vetri. Það er ekki þetta jafna flæði tekna eins og hjá sveitarfélögum sem hafa fleiri en eina meginstoð í atvinnulífinu. Þær framkvæmdir sem nú hefur verið lagt í við höfnina og verið að leggja í styrkja starfsemina við höfnina þó ekki hafi komið fram tölur um það og ég skil, sem uppalinn í sjávarplássi að það er nær ógerlegt. Samkvæmt samtölum við þá sem gera hér út hafa þeir langflestir verið hlynntir þessum framkvæmdum. En – í þessu sambandi verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti með þátttöku í þessum framkvæmdum. Þar ræður ekki vilji okkar heldur geta hafnarsjóðs. Höfnin er og verður í fyrirsjáanlegri framtíð lífæð okkar.
Það eru ekki bara við sem búum við sveiflukenndan fjárhag. Íslenskt efnahagslíf hefur sveiflukennt. Stundum er íslenskt efnahagslíf reyndar oft í svipaðri stöðu og var á árum áður þegar t.d. síldin brást 1968 sem setti allt á hliðina hér og fáir eða engir sem hér eru inni nema ég, muna þær hamfarir sem riðu þá yfir samfélagið. Mín skoðun er sú, að við verðum að hugsa leiðir til að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf og Kistan var t.a.m. einn þáttur í því. Jafnvægi í tekjum er eftirsóknarvert markmið og að sjá betur fyrir hverjar tekjur og útgjöld í takt við það geta orðið. Við búum við það til dæmis núna að við sjáum staðgreiðsluna sveiflast frá mánuði til mánaðar vegna loðnu brests og minni tekna fólks.

Ég talaði um þær framkvæmdir áðan sem hafa þurft að bíða þó bráðnauðsynlegt sé að fara i þær sem fyrst. Við getum varla beðið lengur með mörg þessara verka sem snerta beint innviði okkar og við fáum stöðuga áminningu um að innan ekki svo langs tíma einfaldlega verðum við að snúa okkur að þessum verkefnum.

Ég sagði í inngangi mínum við fyrstu umræðu fjárhagsáætlunar áðan að við þyrftum að skoða lánamöguleika til langs tíma til að greiða niður þann yfirdrátt sem við höfum en reyndar ekki nýtt að ráði fyrr en nú undir lok árs. Núverandi fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir skammtíma fjármögnun upp á allt að 90 milljónum og nú er rétti tíminn til að breyta því yfir í langtímalán. Ég er að kanna möguleika og mun fyrir næsta fund sveitarstjórnar leggja fram tillögu um hvort og þá hvaða möguleikar eru í boði með langtímalán sem bæri lægri vexti en sá yfirdráttur sem við erum með.

Á morgun er fundur með fyrirtækinu Strategíu sem er að vinna að drögum að Stjórnsýsluúttekt fyrir Langanesbyggð og þeim starfshópi sem valin var til að undirbúa úttektina. Það verður mjög forvitnilegt að sjá niðurstöðurnar sem síðar verða kynntar sveitarstjórn þann 2. desember. Stjórnsýsluúttekt er ekki einkunnargjöf stjórnsýslu eða sveitarstjórnar heldur úttekt á því sem betur má fara, betri verkferla, ákvarðanatöku, samskipti, samvinnu og jafnvel hæfni. Það er ekki verið að lúsleita að því sem miður hefur farið, mistökum eða röngum ákvörðunum eða verkferlum. Svo mín ósk er sú, að úttektinni verði tekið eins og hún verður og við vinnum markvist eftir henni. Það er mín reynsla eftir að hafa sjálfur átt þátt í einni slíkri fyrir sveitarfélag.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 18:05.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?