Fara í efni

40. fundur sveitarstjórnar

30.01.2025 16:00

Fundur í sveitarstjórn

40. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, fimmtudaginn 30. janúar 2025. Fundur settur kl. 16:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Árni Bragi Njálsson, Mirjam Blekkenhorst, Þórarinn J. Þórisson, Hulda Kristín Baldursdóttir, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Hjörtur Harðarson, Björn S. Lárusson, sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki og gengið var til dagskrár.

Oddviti óskaði breytingu á dagskrá og að liður 07.4 liður 10 yrði tekinn af dagskrá það sem fjallað er um sama mál undir 3ja lið.
Samþykkt samhljóða.

D a g s k r á

1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 959 frá 29.11.2024.
2. Fundargerð 69 fundar stjórnar SSNE frá 13.12.2024
3. Fundargerð 34. fundar byggðaráðs frá 16.01.2025
     03.1 Liður 6: Ósk um kaup á löndunarkrana með viðauka við fjárhagsáætlun.
     03.2 Liður 10: Tillaga byggðaráðs um uppsögn á samningi við North East Travel.
     03.3 Liður 11: Erindi frá Náttúruverndarnefnd Þingeyinga (sjá bókun sk-.og umhv. nefndar)
4. Fundargerð 13. fundar hafnarnefndar, aukafundar frá 2.01.2025
5. Fundargerð 15. fundar stjórnar Jarðasjóðs frá 16.01.2025
6. Fundargerð 22. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 20.01.2025
     Liður 7: Breyting á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning.
7. Fundargerð 37. fundar skipulags og umhverfisnefndar 21.01.2025
     07.1 Liður 2: Aðalskipulag Norðurþings – kynning á tillögu á vinnslustigi.
     07.2 Liður 3: Deiliskipulag Suðurbæjar á Þórshöfn, skipulagsuppdráttur og greinargerð.
     07.3 Liður 4: Tunguárvirkjun í Þistilfirði, breyting á Aðalskipulagi Langanesb. 2007 – 2027, nýtt deiliskipulag – Skipulagslýsing.
     07.4 Liður 10: Erindi frá Náttúruverndarnefnd Þingeyinga (sjá lið 03.3)
     07.5 Liður 12: Ítrekað bréf til sveitarfélagsins um fráveitumál (Suez)
     07.6 Liður 13: Veiðihús í landi Tungusels – breyting á Aðalskipulagi Langanesb. 2007-2027
     07.7 Liður 14: Deiliskipulag veiðihúss í landi Tungusels.
     07.8: Bókanir skipulags- og umhverfisnefndar frá fundi 21.01.2027
8. Fundargerð 17. Fundar atvinnu og nýsköpunarnefndar frá 21.01.2024
     08.1 Liður 8: Önnur mál, bifreiðaskoðun og atvinnumál.
9. Fundargerð 8. fundar landbúnaðar og dreifbýlisnefndar frá 22.01.2025
     09.1 Liður 1: Bókun nefndarinnar vegna þessa liðar.
10. Samningur um sameiginlegrar barnaverndarþjónustu á NE ásamt samþykktum og viðauka. Önnur umræða.
11. Úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2024-2025
     11.1 Tillaga sveitarstjórnar að sérstökum byggðakvóta 2024-2025
12. Norðurland – okkar áfangastaður – stöðugreining og framkvæmdaáætlun.
13. Bréf sveitarstjóra um endurskoðun aðalskipulags frá 28.01.2025
14. Auglýsing á skrá yfir störf hjá sveitarfélaginu sem eru undanskilin verkfallsheimild.
15. Skýrsla sveitarstjóra

Fundargerð

1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 959 frá 29.11.2024.
Fundargerðin lögð fram

2. Fundargerð 69 fundar stjórnar SSNE frá 13.12.2024
Fundargerðin lögð fram

3. Fundargerð 34. fundar byggðaráðs frá 16.01.2025
     03.1 Liður 6: Ósk um kaup á löndunarkrana með viðauka við fjárhagsáætlun.
Sveitarstjóri / hafnarstjóri hefur lagt fram beiðni um kaup á nýjum löndunarkrana. Ástæða er að skemmdir, frostsprungur hafi komið í ljós við kranann sem ekki borgar sig að gera við. Kaup eru hagstæðari en viðgerð. Meðfylgjandi er viðauki við fjárhagsáætlun 2025 vegna kaupanna.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir kaupin á nýjum löndunarkrana kr. 7.757.000.- (án vsk.) sem fari á fjárfestingu hafnarinnar á Þórshöfn. Fjárfesting í varanlegum rekstrarfjármunum A og B hluta eykst úr 327.607.000.- í 335.364.000.- Handbært fé í árlok minkar úr 102.489.000.- í 94.732.000.-

Samþykkt samhljóða.

     03.2 Liður 10: Tillaga byggðaráðs um uppsögn á samningi við North East Travel.

Bókun um afgreiðslu: Byggðaráð leggur til við sveitarstjórn að samningnum verði sagt upp með þeim fyrirvara sem kemur fram í 15. gr. hans. Sveitarstjórn samþykkir tillögu byggðaráðs.

Samþykkt samhljóða.

     03.3 Liður 11: Erindi frá Náttúruverndarnefnd Þingeyinga (sjá bókun sk-.og umhv. nefndar Liður 07.4) )
Náttúruverndarnefnd Þingeyinga var skipuð í umboði Héraðsnefndar Þingeyinga bs. á grundvelli stofnsamnings byggðasamlagsins. Nú þegar því ferli lýkur að leggja niður Héraðsnefnd fer héraðsnefndin fram á að hvert og eitt sveitarfélag taki að sér hlutverk Náttúrverndarnefndar. Byggðaráð leggur til að skipulags- og umhverfisnefnd taki þetta hlutverk að sér og að erindisbréfi nefndarinnar verði breytt í samræmi við það.

Byggðaráð leggur til í bókun sinni að þau verkefni sem Náttúruverndarnefnd Þingeyinga fór með verði falin skipulags- og umhverfisnefnd og óskar eftir áliti nefndarinnar á málinu. Skipulags- og umhverfisnefnd fjallaði um málið á fundi sínum 21.01.2025 og bókaði að nefndin fallist á að náttúruverndarmál heyri alfarið undir nefndina og að erindisbréfi nefndarinnar verði breytt þannig að náttúruvernd komi þar undir lið um hlutverk nefndarinnar (sjá lið 07.0 og 07.4 í fundargerð nefndarinnar hér á eftir).

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fellst á tillögu byggðaráðs og með samþykki skipulags- og umhverfisnefndar að málefni er varða náttúruvernd falli undir verksvið skipulags- og umhverfisnefndar og felur sveitarstjóra að uppfæra erindisbréf nefndarinnar í samræmi við það og í samræmi við almenna endurskoðun erindisbréfa sem lögð er til í Stjórnsýsluúttekt fyrirtækisins Strategíu. 

Samþykkt samhljóða

4. Fundargerð 13. fundar hafnarnefndar, aukafundar frá 2.01.2025
Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 15. fundar stjórnar Jarðasjóðs frá 16.01.2025
Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 22. fundar velferðar- og fræðslunefndar frá 20.01.2025
     Liður 7: Breyting á reglum um sérstakan húsnæðisstuðning.
Velferðar og fræðslunefnd leggur til breytingar á 8. gr. reglna um sérstakan húsnæðisstuðning vegna 15-17 ára barna þar sem bætt er við „eftir atvikum annað húsnæði“ þar sem nemandi kýs ef til vill fremur að búa í öðru húsnæði en tilgreint er í reglunum en þar segir í núverandi reglum: „Veita skal sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15-17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist eða námsgörðum“. Við bætist „eftir atvikum annað húsnæði“. Rökin eru þau að ekki er alltaf laust húsnæði auk þess sem nemanda gefst kostur á að velja annað úrræði til búsetu.

Til máls tóku: Oddviti, Sigríður, Þórarinn, Mirjam, oddviti, Mirjam, oddviti, Sigríður, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að gera breytinga á 8 gr. reglna um „sérstakan húsnæðisstuðning“ og eftir breytingar hljóðar greinin svo [Letri breytt þar sem breytingin verður]:

Sérstakur húsnæðisstuðningur vegna 15-17 ára barna. Veita skal sérstakan húsnæðisstuðning til foreldra eða forsjáraðila 15–17 ára barna sem leigja herbergi á heimavist námsgörðum eða eftir atvikum annað húsnæði hér á landi vegna náms fjarri lögheimili. Sérstakur húsnæðisstuðningur skal vera óháður tekjum og eignum foreldra eða forsjáraðila og nemur 60% af leigufjárhæð . Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Fjárhæð styrks skal vera kr. 50.000.- kr. á mánuði, þó aldrei hærri en sem nemur leigufjárhæð. Með umsókn um slíkan stuðning skal leggja fram húsaleigusamning og staðfestingu á námi barns. Ákvæði 3.-5. gr. reglna þessara gilda ekki um sérstakan húsnæðisstuðning vegna 15-17 ára barna.

Skrifstofustjóra er falið að uppfæra reglugerðina, auglýsa hana og setja á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samþykkt samhljóða.

7. Fundargerð 37. fundar skipulags og umhverfisnefndar 21.01.2025
     07.0 Bókanir skipulags- og umhverfisnefndar frá fundi 21.01.2025.
Bókanir skipulags- og umhverfisnefndar um þau atriði sem hér fara á eftir.

     07.1 Liður 2: Aðalskipulag Norðurþings – kynning á tillögu á vinnslustigi.
Skipulags- og umhverfisnefnd gerir athugasemd við Aðalskipulags Norðurþings – kynning á tillögu þar sem sveitarfélagamörk eru ekki rétt á milli Norðurþings og Langanesbyggðar á Melrakkasléttu. Sveitarstjóri hefur komið á framfæri umsögn í skipulagsgátt vegna málsins og jafnframt sent umsögnina til bygginga- og skipulagsfulltrúa Norðurþings.
Lagt fram til kynningar.

Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.

     07.2 Liður 3: Deiliskipulag Suðurbæjar á Þórshöfn, skipulagsuppdráttur og greinargerð.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til að sveitarstjórn samþykki að auglýsa fyrirliggjandi tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Til máls tóku: Þórarinn, Sigríður, sveitarstjóri, Þórarinn, sveitarstjóri, Mirjam, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 41. gr skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn leggur til að haldinn verði sérstakur kynningarfundur um tillöguna, um lóðir og í hvaða röð verður byggt.

Atkvæðagreiðsla; Með bókun: Oddviti, Sigríður, Hulda, Hjörtur. Á móti bókun: Mirjam. Þeir sem sitja hjá : Þórarinn, Árni Bragi.

     07.3 Liður 4: Tunguárvirkjun í Þistilfirði, breyting á Aðalskipulagi Langanesb. 2007 – 2027, nýtt deiliskipulag – Skipulagslýsing.
Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að auglýsa fyrirliggjandi skipulagslýsingu í samræmi við 30. og 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umhverfisnefndar um að auglýsa tillöguna skv. 30. og 40. gr. skipulagslaga 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

     07.5 Liður 12: Ítrekað bréf til sveitarfélagsins um fráveitumál (Suez)
Ísfélag hefur ítrekað bréf sitt frá 2023 um afköst fráveitu Langanesbyggðar frá Ísfélaginu. Skipulags og umhverfisnefnd hefur óskað eftir því við sveitarstjórn að málið verði tekið upp í fyrirhuguðum viðræðum við Ísfélag um framhald framkvæmda við höfnina.

Til máls tók sveitarstjóri.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn felur oddvita og sveitarstjóra ásamt forstöðumanni Þjónustumiðstöðvar að taka málið upp í viðræðum við Ísfélag þegar farið verður í þær vegna framhalds framkvæmda við höfnina.

Samþykkt samhljóða.

     07.6 Liður 13: Veiðihús í landi Tungusels – breyting á Aðalskipulagi Langanesb. 2007-2027
Lögð fram uppfærð skipulagsgögn vegna veiðihúss í landi Tungusels þar sem brugðist er við þeim umsögnum bárust. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007 – 2027 skv. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir framlagða tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Langanesbyggðar 2007 – 2027 skv. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða.

     07.7 Liður 14: Deiliskipulag veiðihúss í landi Tungusels.
Lögð fram uppfærð skipulagsgögn þar sem brugðist hefur verið við þeim umsögnum sem bárust. Breytingar á skipulagsgögnum eftir auglýsingu koma fram í kafla 0 Breytingar í greinargerð skipulagsins. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki þannig breytta tillögu að deiliskipulagi fyrir veiðihús í landi Tungusels.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir breytta tillögu að deiliskipulagi fyrir veiðihús í landi Tungusels.

Samþykkt samhljóða.

8. Fundargerð 17. Fundar atvinnu og nýsköpunarnefndar frá 21.01.2024
08.1 Liður 8: Önnur mál, bifreiðaskoðun og atvinnumál.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd skorar á sveitarstjórn að beita sér fyrir því að á Þórshöfn verði skoðunarstöð fyrir bifreiðar þar sem íbúar Langanesbyggðar eiga hvað lengst að fara á landinu í næstu skoðunarstöð, sem er á Húsavík.
Ennfremur leggur nefndin áherslu á að lokið verði við mótun atvinnustefnu í sveitarfélaginu og að því verkefni komi sveitarstjórn, Kistan – þekking og þróun, verkefnastjóri innviða, fyrirtæki í sveitarfélaginu og allir þeir sem hafa hagsmuna að gæta að fjölbreyttu atvinnulífi.

Til máls tóku: Hjörtur, Mirjam, sveitarstjóri, oddviti, sveitarstjóri, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn mun á væntanlegum fundi með þingmönnum kjördæmisins leggja áherslu á að sú aðstaða sem fyrir hendi er á Þórshöfn, fái leyfi til að skoða bifreiðar og að þingmenn beiti sér í málinu sökum fjarlægðar sveitarfélagsins frá næstu skoðunarstöð sem er á Húsavík. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir og kanna grundvöll þess að sú aðstaða sem fyrir hendi er verði nýtt til skoðunar bifreiða.

Samþykkt samhljóða.

Til máls tóku: Sigríður, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir með atvinnu- og nýsköpunarnefnd um að unnið verði áfram að mótun atvinnustefnu sem tekur til allra þátta atvinnulífs í sveitarfélaginu með það að markmiði að renna fleiri stoðum undir atvinnulíf og styrkja innviði í sveitarfélaginu.

Samþykkt samhljóða.

9. Fundargerð 8. fundar landbúnaðar og dreifbýlisnefndar frá 22.01.2025
     09.1 Liður 1: Bókun landbúnaðarnefndar
Landbúnaðar- og dreifbýlisnefnd fer fram á að sveitarfélagið greiði leigu vegna aðalskilarétta í Þistilfjarðardeild sem nemur kr. 232.155.- á ári til að jafna stöðu bænda í sveitarfélaginu.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn fellst á beiðni nefndarinnar um greiðslu á leigu vegna aðalskilarétta í Þistilfjarðardeild sem nemur kr. 232.155.- til að jafna stöðu bænda í sveitarfélaginu. Kostnaður færist á Landbúnaðarmál sem leiga.

Samþykkt samhljóða.

Til mál tóku: Mirjam, sveitarstjóri.

10. Samningur um sameiginlegrar barnaverndarþjónustu á NE ásamt samþykktum og viðauka. Önnur umræða.
Samningurinn um sameiginlega barnaverndarþjónustu á NE á Akureyri var samþykktur við fyrri umræðu á 39. fundi sveitarstjórnar þann 12. desember s.l. Hér eru gögnin lögð fram óbreytt til síðari umræðu. Velferðar og fræðslunefnd gerði engar athugasemdir við samninginn eða fylgigögn.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir samninginn og felur sveitarstjóra að koma bókun um afgreiðslu á framfæri við Akureyrarbæ sem sendir hana áfram til sveitarstjórnarráðuneytisins.

Samþykkt samhljóða.

11. Úthlutun byggðakvóta til byggðalaga á fiskveiðiárinu 2024-2025. Frá Matvælaráðuneyti 22. janúar 2025.
     11.1 Tillögur sveitarstjórnar að sérreglum vegna úthlutunar á kvóta fyrir fiskveiðiárið 2024-2025.

Matvælaráðuneytið hefur sent sveitarfélaginu bréf varðandi úthlutun á byggðakvóta til byggðalaga á fiskveiðiárinu 2024-2025. Gefin er kostur á að senda ráðuneytinu tillögur um sérreglur fyrir 21. febrúar.

Til máls tóku: sveitarstjóri, Þórarinn, oddviti.

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir að senda meðfylgjandi tillögu (11.1) til matvælaráðuneytisins vegna sérstakrar skilyrða fyrir úthlutun á byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárin 2024-2025. Sveitarstjórn harmar þær skerðingar sem eru á almenna byggðakvótanum fyrir fiskveiðiárið 2024-2025.
Sveitarstjórn bendir á að úthlutunin fyrir fiskveiðiárið 2024 – 2025 brjóti í bága við reglugerð um úthlutun byggðakvóta nr. 818/2024 þar sem segir í 2. gr. E liðar:
„Þegar reiknaður hefur verið út hlutur einstakra byggðarlaga samkvæmt A-lið hér að framan, skal hlutur byggðarlaga með færri íbúa en 400 og sem úthlutað var aflaheimildum á fiskveiðiárinu 2023/2024, og eiga rétt til úthlutunar fiskveiðiárið 2024/2025, leiðréttur þannig að ekkert þeirra lækki um meira en 15 þorskígildistonn, milli fiskveiðiáranna 2023/2024 og 2024/2025“.
Fyrir fiskveiðiárið 2023-2024 fékk Þórshöfn úthlutað 102 þorskígildistonnum en fyrir fiskveiðiárið 2024-2025 er þessi kvóti skertur niður í 32 tonn sem er tæplega 70% skerðing. íbúar í byggðalaginu Þórshöfn eru 345 og því færri en segir í E lið. Í ljósi þessa fer sveitarstjórn fram á að úthlutun byggðakvóta til Þórshafnar verði leiðréttur og úthlutað samkvæmt reglugerð.

Byggðakvóti hefur hjálpað kvótalitlum og kvótalausum útgerðum sem stunda grásleppuveiðar vegna meðalafla við veiðar og eru gott tækifæri fyrir nýliðun í atvinnugreininni og það hjálpar þeim útgerðum sem fyrir eru, með marga starfsmenn að gera út allt árið.

Samþykkt samhljóða.

12. Skýrsla – Norðurland, okkar áfangastaður.
Markaðsstofa Norðurlands hefur unnið skýrslu um Norðurland – okkar áfangastaður Norðurhjarasvæðið. Stöðugreining og aðgerðaráætlun. Skýrslan fór til umsagnar í atvinnu- og nýsköpunarnefnd sem lýsti ánægju sinni með skýrsluna sem er vönduð og vel unnin. Tengill á skýrsluna er í gögnum sem fylgja fundarboði.
Lagt fram til kynningar.

13. Bréf sveitarstjóra um endurskoðun aðalskipulags frá 28.01.2025.
Sveitarstjóri óskar eftir heimild sveitarstjórnar fyrir skipulags- og umhverfisnefnd að setja af stað undirbúningsvinnu við endurskoðun aðalskipulags Langanesbyggðar.

Til máls tóku: sveitarstjóri, oddviti,

Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn veitir sveitarstjóra og formanni skipulags- og umhverfisnefndar heimild til að hefja undirbúningsvinnu við endurskoðun aðalskipulagsins og leiða vinnuna í samvinnu við skipulagsfulltrúa.

Samþykkt samhljóða.

14. Auglýsing á skrá yfir störf hjá sveitarfélaginu sem eru undanskilin verkfallsheimild
Sveitarfélög birta ár hvert, samkvæmt lögum auglýsingu yfir þá starfsmenn sem ekki hafa verkfallsheimild.
Auglýsingin er birt til kynningar.

15. Skýrsla sveitarstjóra

Hr. Oddviti, ágætu sveitarstjórnarfulltrúar.

Það er mjög ánægjulegt að finna þann góða og jákvæða anda sem ríkir í samfélagi okkar. Við lestur sameiginlegrar áramótahugvekju oddvita meiri- og minnihluta þeirra lista sem sæti eiga í sveitarstjórn fyllist ég bjartsýni fyrir hönd sveitarfélagsins. Sú nálgun sem þar kemur fram á framtíð okkar segir mér bara eitt – við horfum fram á veginn þar sem allir vinna saman að sameiginlegum hagsmunum, og að því að treysta byggð og búsetuskilyrði í Langanesbyggð. Það er unnið af heiðarleika, festu og ábyrgð að því að byggja upp atvinnulíf, húsnæði, innviði og styrkja stjórnsýsluna með því að taka á þeim atriðum þar sem rýnt er til gagns í framkvæmd þeirrar stjórnsýsluúttektar sem gerð var á síðasta ári. Það felst enginn fagurgali í þessum orðum heldur tala staðreyndir sínu máli.

Ef rýnt er frekar í áðurnefnda áramótahugvekju þá sjáum við, eins og svo mörg sveitarfélög, hvort sem er á höfuðborgarsvæði eða utan þess, að börnum fækkar. Það fækkar í yngsta aldurshópnum. En þetta eru engin ný tíðindi því þetta er það sem öll þróunarríki sjá fram á. Hér á landi hefur fæðingartíðni verðið í frjálsu falli í 10 ár, eins og fram kemur í rannsóknarverkefni doktor Sunnu Kristínar Símonardóttur frá því í fyrra.

Sveitarfélög gera töluvert í því að laða að barnafólk, það er, þar sem innviðir og aðstaða er fyrir hendi. Það höfum við hér. Þrátt fyrir fjarlægð frá höfuðborginni, landstjórninni og helstu stofnunum hennar, þá stöndum við vel að vígi með kröftugt atvinnulíf, góða skóla og þjónustu sem mörg sveitarfélög hafa ekki. En fjarlægðin getur verið afstæð. Rólegt og fallegt umhverfi, að ekki sé talað um birtu á milli húsa eru lífsgæði sem við njótum umfram marga aðra. Því fylgir reyndar sá ókostur að við getum ekki teygt okkur út um eldhúsgluggann til að fá lánað salt hjá nágrannanum. Við þurfum að ganga í næsta hús til þess. Við þurfum á hinn bóginn að sækja ýmsa þjónustu sem ekki er hér annað, jafnvel til höfuðborgarsvæðisins. Það hefur í för með sér fjárútlát sem hluti íbúa hefur lítt eða ekki efni á og við gerum okkur fullkomlega grein fyrir því. Þess vegna er sveitarstjórn samhuga í því að auka við þjónustu í nærumhverfi okkar.

Í dag stöndum við frammi fyrir því lúxus vandamáli að við þurfum að hraða skipulagsvinnu við nýtt hverfi til að anna eftirspurn eftir lóðum. Í fyrsta sinn í 15 ár eru byggð hér íbúðarhús og lokið við eða við það að ljúka úthlutun lóða undir 7 hús á auðum lóðum í þéttbýlinu á Þórshöfn. Í þessu sambandi má nefna að sveitarstjórn hefur samþykkt tillögu um að fara í gerð aðalskipulags fyrir sveitarfélagið allt, því núverandi skipulag gildir til 2027.

Nokkrir tala um skort á framboði menningar, lista og félagslífs en menning er líf okkar og það sem við sköpum sjálf. Að mínu mati eru hér næg tækifæri til félagslífs án þess að við séum mötuð af samfélagsmiðlum um hvað eigum og megum gera. Ég þekki engan svokallaðan áhrifavald í okkar samfélagi sem hefur mótandi áhrif á gerðir okkar eða athafnir. Við mótum menningu, listir og félagslíf sjálf, á eigin forsendum. Það sama á við um atvinnulíf, íþróttir og afþreyingu, við erum sjálfbær í þessu öllu og ég segi það fullum fetum.

Hvað sjálfan mig varðar þá get ég sagt að ég var oft spurður fyrir og eftir jól og áramót hvar við hjónin ætluðum að dvelja yfir hátíðarnar. Svarið var og er, að við ætluðum að vera heima, heima á Þórshöfn, og það er sagt án alls hroka því spurningin virtist eðlileg í öllum tilfellum. Hér eigum við heima og hér viljum við vera enda líður okkur afskaplega vel hér.

Ég hef orðið áþreifanlega var við það allan tímann sem ég hef búið hér að íbúar eru stoltir af sinni heimabyggð, hvort sem þeir eru innfæddir eða aðfluttir eins og ég, og hvort sem þeir búa í þéttbýli eða dreifbýli. Við höfum ekki gert neina formlega könnun eða rannsókn á því hvort og þá hve ánægðir íbúar eru með búsetu hér, þjónustu og aðstæður en stefnum á að gera það í tengslum við stjórnsýsluúttekina. Áður en þjónustuáætlun er kynnt á opnum fundi þurfa niðurstöður úr slíkri könnun að liggja fyrir.

Nú hafa allar nefndir fengið endurskoðaða Stjórnsýsluúttekt og engar athugasemdir borist eftir þá yfirferð. Við gerum ráð fyrir að fara fljótlega í þá innleiðingaráætlun sem úttektin gerir ráð fyrir. Þar er átt við erindisbréf nefnda, skilgreiningar á deildum og störfum, gerð heildarskipurits, endurskoðun nokkurra verkferla og ýmissa reglna s.s. siðareglna. Heilt yfir er niðurstaða þessarar úttektar jákvæð fyrir okkur þar sem bent er á það sem betur megi fara, bæta og laga en engar stóryrtar yfirlýsingar um stjórnsýslu, starfsfólk, nefndir eða ráð. Út frá eigin reynslu við gerð slíkrar úttektar er það mitt persónulega álit að hér höfum við gott verkfæri í höndunum til að gera betur. Það vill reyndar þannig til að fjárhagur okkar er góður en oftar en ekki hafa slíkar úttektir verið gerðar þegar fjárhagur hefur verið mjög slæmur og í raun uppspretta úttektarinnar með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum.

Að lokum vil ég bara óska þeim sem sækja árlegt Þorrablót góðrar skemmtunar og næsta víst að allir skemmti sér og hafi gaman að þó þeir þurfi kannski að horfast í augu við sjálfan sig í þeim atriðum sem verða á dagskrá.

Til máls tóku: oddviti, sveitarstjóri.

Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:40.

Tengd skjöl

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?