43. fundur sveitarstjórnar
Fundur í sveitarstjórn
43. fundur sveitarstjórnar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu sveitarfélagsins að Langanesvegi 2, Þórshöfn, þriðjudaginn 15. apríl 2025. Fundur settur kl. 16:00.
Mætt voru: Sigurður Þór Guðmundsson oddviti, Halldóra J. Friðbergsdóttir, Gunnlaugur Steinarsson, Júlíus Sigurbjartsson, Mirjam Blekkenhorst, Árni Bragi Njálsson, Margrét Guðmundsdóttir, Björn S. Lárusson, sveitarstjóri og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Oddviti setti fund og spurði hvort gerð væri athugasemd við fundarboð eða dagskrá, svo var ekki og gengið var til dagskrár.
D a g s k r á
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 972 frá 11.03.2025
2. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 973 frá 14.03.2025
3. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 974 frá 19.03.2025
4. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 975 frá 20.03.2025
5. Fundargerð stjórnar SSNE nr. 71 frá 27.03.2025
6. Fundargerð 37 fundar byggðaráðs frá 01.04.2025
06.1 Ályktun byggðaráðs vegna breytinga á lögum 145.20118 o.fl.
06.2 Svör atvinnuvegaráðuneytis vegna skerðingar á byggðakvóta Þórshafnar um 69%
7. Fundargerð 40. Fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 08.04.2025
07.1 Skipulagstillaga - Suðurbær Þórshöfn.
07.2 Samantekt umsagna og viðbrögð
07.3 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar vegna skipulagsins
07.4 Erindi – Staðarárvirkjun í Bakkafirði
07.5 Lýsing ASK og DSK Staðarárvirkjun
07.6 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar vegna erindisins.
8. Fundargerð 25. fundar velferðar- og fræðslunefndar 07.04.2025
08.1 Áætlun og aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna frá 25.03.2025
08.2 Málefni félagsþjónustu – Minnisblað um fund 26.03.2025
08.3 Bókanir velferðar- og fræðslunefndar.
9. Fundargerð stjórnar Jarðasjóðs frá 09.04.2025
10. Breytt framkvæmda og kostnaðaráætlun við Naust samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar á 42. fundi vegna viðauka.
11. Siðareglur kjörinna fulltrúa – uppfærsla til samræmis við reglur starfsmanna
11.1 Siðareglur starfsmanna Langanesbyggðar frá 2022
12. Sorpmóttökustöð – fjárveitingar og kostnaður 2023-2025
12.1 Sorpmóttökustöð – uppfærð kostnaðaráætlun mars 2025
13. Skýrsla um stjórnsýsluskoðun Langanesbyggðar fyrir árið 2024
14. Skýrsla sveitarstjóra.
Fundargerð
1. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 972 frá 11.03.2025
Fundargerðin lögð fram.
2. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 973 frá 14.03.2025
Fundargerðin lög fram.
3. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 974 frá 19.03.2025
Fundargerðin lögð fram.
4. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfélaga nr. 975 frá 20.03.2025
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð stjórnar SSNE nr. 71 frá 27.03.2025
Fundargerðin lögð fram.
6. Fundargerð 37 fundar byggðaráðs frá 01.04.2025
06.1 Ályktun byggðaráðs vegna breytinga á lögum 145/2018 o.fl.
06.2 Svör atvinnuvegaráðuneytis vegna skerðingar á byggðakvóta Þórshafnar um 69%.
Byggðaráð hefur ályktað vegna fyrirhugaðrar hækkunar á veiðigjaldi sem kæmi til með að hafa mikil áhrif á fjárhag sveitarfélagsins. Enn fremur hefur byggðaráð ítrekað afstöðu sveitarfélagsins til skerðingar á byggðakvóta Þórshafnar úr 102 tonnum í 32 tonn og setningu grásleppu í kvóta auk skerðingar á byggðakvóta Bakkafjarðar um 15 tonn rétt eftir að ríkið sleppti hendinni af „Brothættri byggð“ á Bakkafirði.
Til máls tóku: Mirjam, Björn, Gunnlaugur, Júlíus, oddviti, Mirjam, sveitarstjór, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir ályktun byggðaráðs og skorar á þingmenn kjördæmisins að beita sér fyrir betri greiningu á hugsanlegum afleiðingum hækkunar á veiðigjaldi á sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi. Þá lýsir sveitarstjórn yfir undrun sinni á svari ráðherra við fyrirspurn á Alþingi um skerðingu byggðakvóta. Sveitarstjórn Langanesbyggðar mótmælir harðlega skerðingu byggðakvóta og telur ráðherra hafa farið á mis við reglugerð 818/2024. Þess er krafist að leiðrétting verði gerð.
Samþykkt samhljóða.
7. Fundargerð 40. Fundar skipulags- og umhverfisnefndar frá 08.04.2025
07.1 Skipulagstillaga Suðurbær Þórshöfn.
07.2 Samantekt umsagna og viðbrögð
07.3 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar vegna skipulagsins
Í skipulags- og umhverfisnefnd var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir Suðurbæ á Þórshöfn eftir auglýsingu og athugasemdir við tillöguna í auglýsingaferlinu. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki framlagða tillögu með þeim breytingum sem gerðar voru á henni og eru minniháttar.
Til máls tóku: Júlíus, sveitarstjóri, Júlíus, sveitarstjóri, Mirjam, oddviti,
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi tillögu að nýju deiliskipulagi fyrir Suðurbæ Þórshafnar skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Samþykkt samhljóða.
07.4 Erindi – Staðarárvirkjun í Bakkafirði.
07.5 Lýsing ASK og DSK Staðarárvirkjun.
07.6 Bókun skipulags- og umhverfisnefndar vegna erindisins.
Verkís hefur lagt fram tillögu að skipulagslýsingu um breytingu á Aðalskipulagi
Langanesbyggðar 2007-2027 og tillögu að nýju deiliskipulagi vegna áforma Artic Hydro um virkjun Staðarár í Bakkafirði. Skipulags- og umhverfisnefnd leggur til við sveitarstjórn að hún samþykki að auglýsa fyrirliggjandi skipulagslýsingu í samræmi við 30. og 40. gr. Skipulagslaga nr. 123/2010.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, Mirjam, Gunnlaugur, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn óskar eftir því að hverfisráð Bakkafjarðar fjalli um erindið áður en það verður tekið til meðferðar hjá sveitastjórn.
Samþykkt samhljóða.
8. Fundargerð 25. fundar velferðar- og fræðslunefndar 07.04.2025
08.1 Áætlun og aðgerðir gegn ofbeldi meðal barna frá 25.03.2025.
Velferðar- og fræðslunefnd óskar eftir því að aðgerðaráætlun og þeim liðum sem snúa að sveitarfélaginu verði fylgt eftir í samstarfi viðeigandi aðila. Nefndin mun taka upp skýrsluna aftur haustið 2025 til umræðu.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir með nefndinni um að aðgerðaráætluninni verði fylgt eftir og felur nefndinni að það starf í samstarfi við viðeigandi aðila.
Samþykkt samhljóða.
08.2 Málefni félagsþjónustu – Minnisblað um fund 26.03.2025.
08.3 Bókanir velferðar- og fræðslunefndar.
Haldinn var fundur með félagsþjónustu Norðurþings líkt og velferðar og fræðslunefnd óskaði eftir á síðasta fundi nefndarinnar. Umræðuefni fundarins var verkaskipting Norðurþings og Langanesbyggðar varðandi félagslega heimaþjónustu og í hvaða farveg eigi að setja þau mál sem Langanesbyggð er gert að sinna samkvæmt samningi.
Til máls tóku: Mirjam, sveitarstjóri, Margrét, oddviti,
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn tekur undir þær tillögur sem lagðar eru fram í minnisblaði og felur sveitarstjóra og velferðar- og fræðslunefnd að fylgja því eftir að finna farveg fyrir þau mál sem Langanesbyggð er gert að sinna samkvæmt samningi. Þá felur sveitastjórn sveitastjóra að uppfæra gjaldskrár þær sem um er fjallað í minnisblaðinu og jafnframt að fara að undirbúa innheimtu á þeim gjöldum sem okkur ber að gera samkvæmt lögum.
Samþykkt samhljóða.
9. Fundargerð 17. fundar stjórnar Jarðasjóðs frá 09.04.2025
Fundargerðin lögð fram.
10. Breytt framkvæmda og kostnaðaráætlun við Naust samkvæmt samþykkt sveitarstjórnar á 42. fundi vegna viðauka.
Lögð fram breytt kostnaðaráætlun vegna Nausts fyrir árið 2025 í samræmi við samþykkt sveitarstjórnar á 42. fundi þar sem samþykktur var viðauki sem gerir ráð fyrir að í stað 100 milljóna króna til framkvæmda á árinu verði varið 52 milljónum og dregið úr framkvæmdum í samræmi við það.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir breytta áætlun framkvæmda við Naust samkvæmt framlagðri áætlun.
Samþykkt samhljóða.
11. Siðareglur kjörinna fulltrúa – uppfærsla til samræmis við reglur starfsmanna
11.1 Siðareglur starfsmanna Langanesbyggðar frá 2022.
Í stjórnsýslu endurskoðun Strategíu var lögð fram tillaga um breytingar á siðareglum kjörinna fulltrúa frá 2019 til samræmis við siðareglur starfsmanna frá 2022.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.
Bókun um afgreiðslu: Sveitarstjórn samþykkir uppfærslu siðareglna kjörinna fulltrúa í takt við siðareglur starfsmanna.
Samþykkt samhljóða.
12. Sorpmóttökustöð – fjárveitingar og kostnaður 2023-2025
12.1 Sorpmóttökustöð – uppfærð kostnaðaráætlun mars 2025
Lagt fram vegna fyrirspurnar á 42. fundi sveitarstjórnar.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, Mirjam, sveitarstjóri, oddviti, Júlíus, sveitarstjóri, oddviti.
13. Skýrsla um stjórnsýsluskoðun Langanesbyggðar fyrir árið 2024
Lögð fram skýrsla um stjórnsýsluskoðun til kynningar.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, oddviti.
14. Skýrsla sveitarstjóra.
Hr. Oddviti, sveitarstjórnarfulltrúar.
Það er ánægjulegt til þess að vita, að nú fer þeim lóðum sem við auglýstum árið 2023 sem lausar til umsóknar innan bæjarmarka Þórshafnar, hratt fækkandi. Á korti frá 2023 voru auglýstar 5 tilbúnar og lausar lóðir innan bæjarmarka með 12 íbúðum. Það bættust við 4 lóðir við að Langanesveg 17-19, ein við Langanesveg 25 og ein við Bakkaveg 7. Samtals voru þetta 11 lausar lóðir fyrir 18 íbúðir. Nú er búið að úthluta alls 3 lóðum fyrir 6 íbúðir, þar af er ein fullbúin og 5 íbúðir eru í byggingu. Í umsóknarferli eru tvær einbýlishúsalóðir. Kominn er tími til að uppfæra þetta kort og nú hefur verið samþykkt í sveitarstjórn að auglýsa deiliskipulag Suðurbæjar sem ætti að fullnægja hugsanlegri eftirspurn næstu árin. Árið 2023 gerðum við ráð fyrir að geta byggt á 6 lóðum við Langanesveg við Ingimarsstaði, á svokölluðu olíuplani en af því varð ekki þar sem jarðvegur var talinn það mengaður að ekki var ráðlagt að byggja íbúðarhús þar – mjög fallegur staður engu að síður eins og alls staðar í sveitarfélaginu. Ennfremur er á skipulagi bygging 5 smærri íbúða við Bakkaveg fyrir aldraða, við hliðina á Bakkavegi 23 en ég geri ráð fyrir að sveitarstjórn endurskoði þau áform og finni þessum íbúðum fyrir aldraða annan stað í skipulagi.
Við höfum nú á hverju ári í nokkur ár fengið athugasemdir frá endurskoðanda stjórnsýslu vegna útfærslu á viðaukum auk annarra smærri athugasemda. Í ár átti ég gott samtal við Sesselju Árnadóttur sem hefur unnið þetta verk fyrir KPMG þar sem mér finnst þetta vera frekar ógreinilega orðað í sveitarstjórnarlögunum sjálfum. En – það er klárt að heildarútgjöld þurfa að koma fram bæði í fylgiskjali og bókun um samþykkt viðaukans. Í reglugerð með sveitarstjórnarlögum nr. 1212/2015, 18. gr. 2. mgr. segir, með leyfi oddvita; „Í tillögu til sveitarstjórnar að viðauka við fjárhagsáætlun skal því lýst hvaða breyttu forsendur kalli á breytingu á áætluninni og í hverju breytingin felst“. Þetta þarf samkvæmt samtalinu við Sesselju einnig að koma fram í bókun – þó ekki sé talað beint um það.
Frá áramótum hefur þetta verið afgreitt þannig samkvæmt reglugerðinni auk þess sem öll fylgiskjöl nema þau sem varða starfsmannamál og trúnaðarmál fylgja fundargerðum. Í framtíðinni verða allir liðir í fundargerðum afgreiddir með málsnúmeri þannig að hægt verður að fylgjast með framvindu mála á mun auðveldari hátt. Þetta er liður í rafrænni innleiðingu sem við erum að fara í samkvæmt samningi við KPMG í samvinnu við Vopnafjarðarhrepp þar um og samþykktur hefur verið. Þetta mun ekki einungis auðvelda þeim sem les fundargerðir að fylgjast með málum heldur létta til muna fyrir okkur í stjórnsýslunni að rekja mál, finna skjöl og koma á betra skipulagi skjalamála. Í dag er þetta í ótal möppum í skýinu og getur verið erfitt að finna skjal í möppu sem við á – en þetta stendur sem sagt til bóta.
Í samráði við hönnuð, forstjóra og rekstrarstjóra Nausts var ákveðið að skipta 2. áfanga endurbóta á Nausti í áfanga 2 og 3. Þetta var gert þegar í ljós kom að lyftan sem er í húsinu getur ekki þjónað hlutverki sínu til frambúðar. Gert verður við lyftuna til bráðabirgða en í 3ja áfanga verður komið fyrir nýrri lyftu. Þetta gerir okkur einnig mögulegt að sækja um frekara framlag til 3ja áfanga úr framkvæmdasjóði aldraðra en vilyrði fékkst fyrir framlagi til 1. og 2. áfanga og það þegar greitt fyrir 1 áfanga. Áætlaður kostnaður 1. áfanga var samanlagt 125 milljónir en vegna ófyrsjáanlegra atriða eins og skemmda sem komu í ljós á húsnæði, breytinga og aukinnar kröfu um flóttaleiðir og brunavarnir varð heildarkostnaður 150 milljónir og af því fékkst framlag að upphæð 49 milljónir og nettókostnaður því 101 milljón króna. Bráðlega verður lögð fyrir byggðaráð og sveitarstjórn tillaga um þessa áfangaskiptingu en endanleg ákvörðun mun liggja fyrir við gerð næstu fjárhagsáætlunar. Á þessu fjárhagsári er ætlunin að leggja 52 milljónir í að steypa sökkla og plötu fyrir stækkun Nausts. Ákveðið var að draga úr framkvæmdahraða vegna þessarar stöðu sem kom upp við bilun lyftunnar og fleiri atriða og færa fé yfir í sorpmóttökustöð og gera hana starfhæfa í haust. Móttökustöðin mun spara sveitarsjóði umtalsverða fjármuni miðað við kostnað við sorpmál i dag.
Það er mín skoðun að við séum að forgangsraða fjárfestingum á skynsaman hátt en eins og ég hef oft sagt áður liggja fyrir mjög mörg brýn verkefni sem fyrr eða síðar verður að taka ákvörðun um – allt eftir efnum og ástæðum. Ég get einungis nefnt malbikun gatna og viðgerðir, lagningu gangstétta, viðgerð á Íþróttamiðstöðinni, gerð aðalskipulags sem reyndar er styrkt af skipulagssjóði, frárennslismál, Naustið eins og áður er komið inn á og fleira. Hvað höfnina varðar bíðum við eftir frekari svörum í fjárveitingum til hafnarmála og samþykkt umferðaröryggisáætlunar fyrir Þórshöfn þar sem gera má ráð fyrir framlagi vegna breyttrar aðkomu. Höfnin er lífæð okkar og sjávarútvegur stendur undir 44% útsvarstekna okkar samkvæmt úttekt Vífils Karlssonar.
Síðast en ekki síst – þann 1. apríl tók til starfa samfélagsfulltrúi á Bakkafirði þar sem sveitarfélagið tekur við verkefnum „Brothættrar byggðar“ þar sem frá var horfið af Byggðastofnun. Hún heitir Svanhildur Arnmundsdóttir og kunnug öllum staðháttum á Bakkafirði. Starfslýsingin var gerð viljandi mjög opin með verkefni á sviði atvinnumála, félagsmála og sem tengiliður við stjórnsýsluna á Þórshöfn svo eitthvað sé nefnt. Þann 1. maí kemur svo til starfa nýr forstöðumaður Nausts, hún heitir Silvía Jónsdóttir og flytur hingað ásamt manni sínum. Silvía hefur fjölþætta reynslu úr atvinnulífinu meðal annars frá Icelandair og ISAVIA þar sem hún var þjónustustjóri og hópstjóri auk þess sem hún hefur menntun í mannauðs- og leiðtogafærni frá Opna Háskólanum. Þóra Magnúsdóttir núverandi forstöðumaður mun starfa með Silvíu fyrst um sinn þar til uppsagnarfresti hennar lýkur. Við þökkum Þóru fyrir vel unnin störf í þágu Langanesbyggðar og óskum henni velfarnaðar í framtíðinni.
Að lokum óska ég ykkur gleðilegra páska og vona að þið njótið þeirra.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 17:02.