12. fundur velferðar- og fræðslunefndar
12. fundur velferðar- og fræðslunefndar Langanesbyggðar haldinn í félagsheimilinu Þórsveri Þórshöfn miðvikudaginn 4. mars 2020 kl. 14:00.
Mætt voru: Sara Stefánsdóttir formaður, Aneta Potrykus, Sólrún Arney Siggeirsdóttir, Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Jóhann Hafberg Jónasson.
Áheyrnarfulltrúi: Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir skólastjóri Barnabóls.
Einnig sat Jónas Egilsson skrifstofustjóri fundinn og ritaði fundargerð.
Fundargerð
1. Innritunarreglur leikskóla – 2. umræða
Drög að innritunarreglum fyrir leikskólann á Þórshöfn lögð fram, ásamt minnisblaði Gunnars Gíslasonar, um fjölda barna í leikskólanum dags. 16. febrúar 2020. Einnig lagðir fram minnispunktar frá skólastjóra leikskólans, dags. 17. febrúar.
Bókun um afgreiðslu: Nefndin mælir með því að framlögð drög að reglum um innritun barna í leikskóla Langanesbyggðar verði samþykktar.
Samþykkt samhljóða.
2. Tillaga um stefnumótun fyrir íþróttamannvirki Langanesbyggðar
Svohljóðandi tillaga um skipan vinnuhóps um málefni íþróttamannvirkja lögð fram: Velferðar- og fræðslunefnd leggur til við byggðaráð að skipaður verði 3ja manna starfshópur til að gera tillögur um framtíðarsýn um nýtingu íþróttamannvirkja í Langanesbyggð. Markmið verði að skapa sýn á ný og aukin tækifæri til íþróttaiðkana og heilsuræktar í Veri og á aðliggjandi íþróttasvæðum sem skapast hafa og munu væntanlega gera það í framtíðinni. Hópurinn hafi markmið um heilsueflandi samfélag að leiðarljósi.
Starfshópurinn hafi samráð við starfsmenn hússins og helstu notendur þess, skóla, félög og hópa. Hann skili áliti til byggðaráðs fyrir lok maí nk.
Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir framlagða tillögu og leggur til að byggðaráð skipi í nefndina. Enn fremur að málinu verði vísað til starfshóps um heilsueflandi samfélag í Langanesbyggð til umsagnar.
Samþykkt samhljóða.
3. Samstarf UMFL og Langanesbyggðar um íþrótta- og æskulýðsmál
Erindi frá formanni UMFL, dags. 17. febrúar 2020 lagt fram með ósk um samræður um samstarf um íþrótta- og æskulýðsmál.
Bókun um afgreiðslu: Nefndin fagnar framlögðu erindi formanns UMFL og leggur til við byggðaráð að viðræður við UMFL um samstarf verði hafnar sem fyrst á grundvelli erindisins.
Samþykkt samhljóða.
4. Lagt fram til kynningar
a) Stefna Sambands íslenskra sveitarfélaga um samfélagslega ábyrgð
b) Samstarf safna – ábyrgðasöfn, sameining og samvinna safna á Eyþingssvæðinu
c) Sálfræðiþjónusta í Norðurþingi
d) Reglur Barnaverndarnefndar Þingeyinga um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar
5. Önnur mál
5.1) Ósk um aðgengi að Veri
Greint var frá erindi Karenar Rutar Konráðsdóttur með ósk um aðgengi dóttur hennar, Erlu Rós Ólafsdóttur, að líkamsræktinni í Veri. Erla Rós er 17 ára og því undir þeim aldursmörkum sem eru fyrir aðgengi að líkamsræktinni utan hefðbundins opnunartíma.
Bókun um afgreiðslu: Nefndin mælir með því Erla Rós Ólafsdóttir fái aðgang að líkamsræktarstöðinni í Veri utan hefðbundins opnunartíma, enda er um þrautþjálfaðan íþróttamann að ræða, en ábyrgð foreldra.
Samþykkt samhljóða.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.
Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 14:56.