15. fundur velferðar- og fræðslunefndar
Fundur velferðar- og fræðslunefndar
15. Fundur velferðar- og fræðslunefndar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu Langanesbyggðar að Langanesvegi 2, fimmtudaginn 14.03.2024 kl. 15:00
Mætt voru: Sigríður Friðný Halldórsdóttir, Karítas Ósk Agnarsdóttir, Þórarinn J. Þórisson, Margrét Guðmundsdóttir, Jóhann Hafberg Jónasson og Bjarnheiður Jónsdóttir skrifstofustjóri sem ritaði fundargerð.
Einnig sátu undir lið 1-6 um fræðslumál eftirtaldir áheyrnarfulltrúar:
Hilma Steinarsdóttir skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn, Magdalena Zawodna fyrir kennara grunnskólans, Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir leikskólastjóri. Herdís Eik Gunnarsdóttir og Þóra Magnúsdóttir sátu undir 7.lið.
Formaður setti fund og stjórnaði. Hún spurði hvort athugasemd væri gerð við fundarboð og dagskrá.
Fundargerð
Fræðslumál
1. Gerð stefnu og viðbragðsáætlunar vegna eineltis, ofbeldis, kynferðislegrar og kynbundinnar áreitni fyrir Langanesbyggð
Bókun um afgreiðslu: Allir starfsmenn eiga rétt á vinnuumhverfi þar sem hættan á einelti, ofbeldi, kynferðislegri eða kynbundinni áreitni er hverfandi og er Langanesbyggð sem vinnustaður þar engin undantekning. Velferðar og fræðslunefnd felur skrifstofu Langanesbyggðar að gera drög að áætlun sem yrði í samræmi við aðrar deildir innan sveitarfélagsins.
Samþykkt samhljóða.
2. Skýrsla leikskólastjóra Barnabóls
Leikskólastjóri fór yfir starfsmannamál, námskeið starfsmanna, lóðamál og vel nýtt leikskólapláss leikskólans. Leikskólastjóri hvetur foreldra að sækja um leikskólapláss tímanlega.
3. Skýrsla skólastjóra Grunnskólans á Þórshöfn
Skólastjóri ræddi nýliðna þemaviku og árshátíð skólans, forvarnarteymi skólans og vinnu sem er þar í gangi. Einnig var farið yfir starfsmannamál grunn- og tónlistarskólans.
4. Önnur mál
Nefndin ræddi að skipuleggja næsta námskeið í fræðslu í úrvinnslu áfalla.
Bókun um afgreiðslu: Formanni falið að skoða hvaða námskeið eru í boði og kostnað.
Samþykkt samhljóða.
Velferðarmál:
5. Samstarfssamningur við Aflið
Félagsþjónusta Norðurþings hefur til skoðunar að gera samstarfssamning við Aflið – samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi. Markmið samstarfssamningsins er að efla þjónustu fyrir þolendur ofbeldis og aðstandendur þeirra á samningssvæðinu.
Bókun um afgreiðslu: Nefndin er jákvæð fyrir samstarfssamningi við Aflið enda hefur sannast að: „Þegar úrræði stendur til boða þá fjölgar einstaklingum sem nýta þjónustuna á því svæði sem gefur til kynna að nálægð við úrræði auki líkurnar á því að þolendur leiti sér hjálpar“ (Aflið. jan 2024). Mikilvægt er að fá úrræði á svæðið svo þolendur þurfi ekki að leita langt eftir þjónustu.
Samþykkt samhljóða.
6. Drög að samningi við Akureyrarbæ um barnaverndarþjónustu.
Síðustu ár hefur Langanesbyggð verið með samning við Norðurþing að sinna barnaverndarþjónustu en samkvæmt „Lögum um breytingar á barnaverndarlögum, nr. 80/2002 (barnaverndarþjónsta, samþætting o.fl.) [...] 11.gr. kemur fram að í umdæmi hverrar barnaverndarþjónustu skulu vera í það minnsta 6.000 íbúar.“
Því hefur Norðurþing farið í samningsviðræður við Barnanefndarþjónustu Eyjafjarðar til að uppfylla skilyrði um 6.000 íbúa lágmark.
Bókun um afgreiðslu: Nefndin gerir ekki athugasemdir við samninginn fyrir sitt leyti en vill leggja áherslu á að staðið verði vörð um þjónustu við jaðarsvæðin í ljósi þess að þjónustusvæðið er nú orðið umtalsvert stærra.
Samþykkt samhljóða.
7. Drög að samningi HSN og Nausts um hjúkrun og læknisþjónustu ásamt eldri samningi frá 2021
Þóra og Herdís, rekstrarstjórar Nausts, komu á fundinn og gerðu grein fyrir samningnum og hvernig fyrirkomulagið hefur gengið frá stofnun hans.
Bókun: Samkvæmt framkvæmdarstjórum (þáverandi og núverandi) þá er fyrirkomulagið gott eins og það er. Það er þó nauðsynlegt að mannahallæri á heilsugæslunni bitni ekki á heimilinu.
Bókun um afgreiðslu: Nefndin samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.
Samþykkt samhljóða.
8. Önnur mál
Rætt var um bílamál til að bjóða upp á félagslega akstursþjónustu. Ekki hefur fundist bíll sem gæti hentað þjónustunni en málið er í skoðun.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 16:10