26. fundur velferðar- og fræðslunefndar
Fundur í velferðar- og fræðslunefnd
26. fundur velferðar- og fræðslunefndar Langanesbyggðar, haldinn á skrifstofu Langanesbyggðar að Langanesvegi 2, þriðjudaginn 1. febrúar 2022 kl. 14:00.
Mætt voru: Aneta Potrykus varaformaður, Valgerður Sæmundsdóttir, Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, Sólveig Sveinbjörnsdóttir, Jónas Egilsson sveitarstjóri og Björn S. Lárusson skrifstofustjóri sem einnig ritaði fundargerð.
Einnig sátu undir lið 1 til 5 á fundinum eftirtaldir áheyrnarfulltrúar: Hilma Steinarsdóttir skólastjóri Grunnskólans á Þórshöfn og Halldóra Jóhanna Friðbergsdóttir skólastjóri Barnabóls, Magdalena Zawodna fulltrúi kennara Grunnskólans, Aðalbjörg María Marinósdóttir fulltrúi nemenda á Barnabóli.
Sigurgjörn Veigar Friðgeirsson íþrótta og tómstundafulltrúi var í fjarfundarsambandi varðandi lið 8.
Varaformaður setti fund og stjórnaði. Hún spurði hvort athugasemd væri gerð við fundarboð og dagskrá. Svo var ekki og því var gengið til dagskrár.
Fundargerð
Fræðslumál
1. Skólastefna – framgangur
Þessum lið er frestað vegna veikindaforfalla ráðgjafa.
2. Greinargerð um uppfærslu á fræðsluefni um kynheilbrigði fyrir heilsuvernd skólabarna
Greinargerð frá Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu þar sem gerð er grein fyrir uppfærslu á fræðsluefni um kynheilbrigði fyrir heilsuvernd skólabarna. Lagt fram til kynningar.
3. Minnisblað um breytt skipulag barnaverndar
Lagt fram minnisblað frá félagsmálastjóra Norðurþings dagsett 24. janúar 2022 um breytta skipan barnaverndar sem tekur gildi 28. maí 2022.
Til máls tóku: Gréta Bergrún, Jónas, Hilma, Halldóra Jóhanna, Jónas.
Bókun um afgreiðslu: Velferðar- og fræðslunefnd fagnar nýjum farsældarlögum og telur þau til bóta fyrir börn og aðstandendur þeirra hér á landi. Nefndin leggur til að skoðaðir verði möguleikar á að barnaverndarþjónusta verði sameiginleg á Þingeyjarsvæðinu, m.a. vegna vegalengda á svæðinu. Enn fremur er það mat nefndarinnar að skoða eigi möguleika á að sérstakt umdæmisráð barnaverndar verði á landsbyggðinni.
Samþykkt smhljóða
4. Þingsályktun um forvarnir barna og ungmenna gegn kynbundnu ofbeldi
Þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni, ásamt áætlun um aðgerðir fyrir árin 2021 – 2025 ásamt mati Sambands íslenskra sveitarfélaga á árangri aðgerða í þingsályktun 37/150.
Til máls tóku: Hilma, Jónas, Halldóra Jóhanna.
Bókun um afgreiðslu: Velferðar- og fræðslunefnd fagnar framkominni ályktun og hvetur til samþykktar á henni.
Samþykkt samhljóða.
5. Önnur fræðslumál
Lögð var fram fyrirspurn í fimm liður til sveitarstjóra frá formanni velferðar- og fræðslunefndar:
Sveitarstjóri og lagði fram minnisblað með spurningum og svörum við fyrirspurn formanns.
Til máls tóku: Sveitarstjóri, Halldóra Jóhanna, Magdalena, Jónas, Hilma, Jónas.
Áheyrnarfulltrúar fræðslunefndar viku af fundi.
Velferðarmál
6. Húsnæðisáætlun – lokaútgáfa lögð fram til kynningar.
Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur samþykkt húsnæðisáætlun Langanesbyggðar. Lokaútgáfa til lögð til kynningar.
Til máls tóku: Björn, Gréta Bergrún, Sólveig, Jónas.
7. Húsnæðimál og stofnun Húsnæðissjálfseignarstofnunar hses. á landsbyggðinni
Lögð fram gögn um þróun húsnæðismarkaðar á landsbyggðinni, bréf Sambands sveitarfélaga um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar á landsbyggðinni, minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um samstarf um uppbyggingu húsnæðis á landsbyggðinni, viljayfirlýsing félagsmálaráðuneytis, HMS og Sambands íslenskra sveitarfélaga um framtíðarskipan á verkefnum sem varasjóður húsnæðismála hefur haft með höndum og minnisblað HMS um til Sambands íslenskra sveitarfélaga um húsnæðissjálfseignarstofnun á landsbyggðinni.
Til máls tóku: Jónas, Greta Bergrún, Sólveig.
Bókun um afgreiðslu: Velferðar- og fræðslunefnd hvetur til þess að aðild Langanesbyggðar að húseignarsjálfseignarstofnunar á landsbyggðinni verði íhuguð vandlega. Um mikilvægt byggðamál er að ræða og vöntun er á húsnæði í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra falið að gera tillögur til sveitarstjórnar.
Samþykkt samhljóða
8. Minnisblað íþrótta og tómstundafulltrúa um verkefnið Barnvæn sveitarfélög og innleiðingu barnasáttmála SÞ
Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson íþrótta- og tómstundarfulltrúi (í fjarfundarsambandi) gerði grein fyrir minnisblaði til nefndarinnar um verkefnið Barnvæn sveitarfélög og hvað innleiðing barnasáttmála SÞ felur í sér fyrir sveitarfélög.
Til máls tóku: Gréta Bergrún, Sigurbjörn, Jónas; Sigurbjörn, Gréta Bergrún,
Bókun um afgreiðslu: Nefndin þakkar íþrótta- og tómstundarfulltrúa fyrir samanteknina á minnisblaðinu. Nefndi leggur til við sveitarstjórn að skoðaðar verði hugmyndir um ungmennaráð sem kæmi að svipuðum málum. Jafnframt óskar nefndin eftir áliti leik- og grunnskólastjóra og ungmennafélagsins á málinu.
Samþykkt samhljóða.
9. Mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn og réttur barna til þátttöku og áhrifa.
Bréf umboðsmanns barna til sveitarfélaga, dags. 28. janúar 2022, um mat á áhrifum ákvarðana sveitarfélaga á börn og réttur barna til þátttöku og áhrifa.
Bréfið lagt fram.
10. Önnur velferðarmál
Umræður um ungmennaráð og fyrirmyndir annars staðar frá.
Fundargerðin lesin upp og samþykkt samhljóða.
Fundi slitið kl. 15:35.