20.11.2018
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað samninga við sex landshlutasamtök sveitarfélaga um níu verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018-2024, og fékk Eyþing þar 18 milljónir vegna Finnafjarðarverkefnis. Í úthlutun segir: Stórskipahöfn í Finnafirði. Eyþing fær styrk til að stofna félög um reksturinn í eigu sveitarfélaga og þróunarfélag sem sér um kynningu og markaðssetningu í samstarfi við Bremenport í Þýskalandi. Styrkurinn nýtist til að halda áfram nauðsynlegri undirbúningsvinnu vegna þessa. Verkefnið er styrkt um 18.000.000 kr. Að þessu sinni var 120 milljónum króna úthlutað fyrir árið 2018 til sértækra verkefna á sóknaráætlunarsvæðum. Markmiðið með framlögum til sértækra verkefna sóknaráætlanasvæða er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt til grundvallar við mat á umsóknum.