04.08.2018
Nú er vertíðin hafin og samfélagið dettur í kunnuglegan gír. Tekið var á móti fyrsta farminum 30 júlí er Sigurður Ve kom til Þórhafnar með um 350 tonn af makríl. Ísfélag Vestmannaeyja á Þórshöfn er að taka í gagnið nýjan búnað til notkunar við uppsjávarvinnslu félagsins. Að sögn Siggeirs Stefánssonar framleiðslustjóra á búnaðurinn að skila betri gæðum vörunar, meiri sjálfvirkni við vinnsluna og eykur áreiðanleika vinnslunar. Helsti búnaðurinn sem er verið að taka í notkun eru 3 nýjar sjálfvirkar pokavélar, sjálfvirk stöflun á bretti, sjálfvirkur úrsláttur á blokkum ásamt flutnings, stýri og stjórn kerfi við þennan búnað. Til þess að koma þessu fyrir þurfti að teygja og toga húsnæðið en það var byggt kringum 1975 og hefur starfsemin í því tekið miklum breytingum. Einnig var farið í að endurnýja og betrumbæta fráveitukerfi frystihússins. Það er því óhætt að segja að það sé nóg um að vera hjá Ísfélaginu og nú er bara að vona að veiði verði góð og vertíðin gjöful.