17.02.2016
Í janúar fóru nemendur og kennarar í grunnskólanum á Bakkafirði í afar skemmtilega og lærdómsríka ferð til Hollands. Á heimasíðu skólans er að finna þessa skemmtilegu lesningu um ferðina: Þá erum við Hollandsfarar komnir heim. Við komum heim aðfararnótt laugardagsins. Þessi ferð var frábær og höfðum við gagn og gaman af þessari ferð. Við fengum að skoða hús Evrópusambandsins þar sem við fræddumst um reglur og tilgang sambandsins. Við skoðuðum Friðarhöllina í Haag þar sem Alþjóðadómstóllinn er til húsa og sáum einnig safnið sem er í því húsi. Hollendingar hafa verið að breyta öllu í sambandi við ráðuneytin hjá sér og hafa sameinað mörg þeirra. Þess vegna voru byggð hús sem hýsa ráðuneytin og eru það nokkurs konar skýjakljúfar Við skoðuðum hús félagsmála- og heilbrigðisráðuneytissins og fengum fyrirlestur um reglur Hollendinga um innflytendur. Einnig fengum við að heimsækja Alþingi þeirra Hollendinga og það er frekar erfitt að komast þangað inn. Þar mættu okkur verðir með byssur. Við fórum til Amsterdam einn dag og skoðuðum borgina, reyndar í smá rigningu. Hluti af hópnum skoðaði Dýflissuna (svona hryllingssafn) en aðrir fóru bara í búðir. Við fórum á safn sem er kallað safn menntunnar og er nokkurs konar náttúru- og sögusafn. Það var virkilega flott safn þar sem mikið var um uppstoppuð dýr og eins voru herbergi sem hvert og eitt hafði sitt þema. Þar var herbergi um Inúíta, herbergi um vatn, herbergi tileinkað Neanderdalsmanninum, herbergi um stjörnufræði og svo bara næstum endalaus herbergi. Það er greinilegt að mál innflytjenda liggja þungt á þeim, því það var rætt um þá næstum hvar sem við fórum.
Við héldum Íslendingakvöld á mánudeginum þar sem við buðum upp á kjötsúpu, harðfisk og skyr. Það er gaman að segja frá því að fólkið í Hollandi var steinhissa á því að borðuðum svona mikið lambakjöt. Krakkarnir frá Rúmeníu voru í næsta húsið við okkur og náðum við að kynnast þeim vel. Þetta voru hressir og kátir krakkar.