07.12.2017
Í gær var gleðidagur í Langanesbyggð þegar fyrsta skóflustungan var tekin að nýjum leikskóla. Edda Jóhannsdóttir, einn af fyrstu starfsmönnum Barnabóls tók sér skóflu í hönd og byrjaði að moka. Leikskólabörnin létu ekki sitt eftir liggja enda spennt og búin að bíða allan daginn eftir að fá að moka. Þau sungu fyrst tvö lög fyrir gestina af mikilli einlægni. Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti Langangesbyggðar flutti stutta tölu og bauð gesti velkomna. " Hér í dag er ætlunin að taka fyrstu skóflustunguna að nýju húsnæði fyrir leikskólann okkar og um leið halda áfram þeirri vegferð að bæta aðstöðu barna til skemmri og lengri tíma. Það sem er að gerast hér í dag er áframhaldandi endurnýjun og uppbygging á þeim fasteignum sveitarfélagins sem snúa að skólamálum og vitum við það öll sem hér erum að hagur barnanna okkar á að vera í fyrirrúmi. Ég er stoltur af því skrefi sem við erum að taka hér í dag og tel ég þetta vera samfélaginu öllu til heilla að hefja þessar framkvæmdir og um leið að stefna að því að ljúka þeim fyrir skólabyrjun haustið 2018." Þorsteinn rifjaði aðeins upp sögu leikskólans og sagði það heiður fyrir sig, sem áður var í leikskólanum hjá Eddu, að hafa hana í því hlutverki að taka þetta skref að nýjum leikskóla. Edda er sannarlega vel að þessu komin, enda starfaði hún í 32 ár við leikskólann og margir sem eiga góðar minningar um dvölina hjá henni þar.
Skóflustungan var tekin á lóðinni við hliðina á núverandi húsnæði Barnabóls, en það hús var tekið í notkun árið 1983. Þar áður hafði leikskólinn verið í kjallaranum hjá Eddu og í Félagsheimilinu. Árið 2001 var síðan fest kaup á Hálsvegi 3 sem bráðabirgðahúsnæði, enda stóð til að byggja við leikskólann. Það má því segja að það sé kominn tími á þetta og verður þetta mikil lyftistöng fyrir sveitarfélagið, sem og Svalbarðshrepp sem tekur þátt í byggingu leikskólans. Kári blés hressilega á viðstadda enda vetrartíð, en eftir að skóflustungan hafði verið tekið var viðstöddum boðið upp á pizzu á barnum.