Vinna að nýrri ferðamannaleið fer nú fram hjá Markaðsstofu Norðurlands, en leiðin liggur með strandlengjunni frá Húnaflóa að Bakkafirði. Áhersla er á standmenningu og er þetta byggt upp með aðra ferðamannavegi sem fyrirmynd, þar sem athygli er vakin á áhugaverðum stöðum á leiðinni. Upphafspunktur eða endastaður leiðarinnar verður staðsettur í Langanesbyggð, og í þeirri vinnu sem framundan er skapast tækifæri til að þróa markmið og markaðssetningu fyrir ferðaþjónustu á svæðinu. Verkefnisstjóri hefur verið ráðinn yfir verkefnið og á morgun verður fundur stýrihóps verkefnisins með erlendri markaðsstofu sem hefur tekið að sér heildarhönnun á upplifunarferðaþjónstu á Norðurstrandarleiðinni. Gréta Bergrún situr nú í stýrihópi verkefnisins fyrir hönd sveitarfélagsins og mun kalla til ferðaþjónustuaðila og aðra áhugasama til að taka þátt í vinnunni sem framundan er.
Hinn árlegi jólamarkaður verður haldinn í íþróttahúsinu á laugardaginn kl. 13-18. Þar verður ýmis varningur í boði, þar verður hægt að versla hönnun úr heimabyggð, föt, skó, leikföng, gjafavöru, bækur, verkfæri og ýmislegt fleira. Þá verður einnig kaffihús foreldrafélagsins, happdrætti og allir ættu að geta fundið eitthvað sér til gagns eða gamans. Heimasíða markaðarins er facebook.com/jolamarkadur2011.