13.11.2016
Fyrir viku síðan var umfangsmikil björgunaraðgerð í Gunnólfsvíkurfjalli en þá var Reimar bóndi á Felli í sjálfheldu við fossinn Míganda og var bjargað af sérhæfðum klettabjörgunarmönnum, ásamt fjölmennu björgunarliði sem kom að aðstæðum. Þau hjónin, Reimar og Dagrún kona hans notuðu tækifærið um helgina til að afhenda Björgunarsveitinni Hafliða björgunarlaun, og komu einnig fram einlægum þökkum til allra þeirra sem komu að þessari giftusamlegu björgun. Reimar var í fjallinu að eltast við kindina Snöru sem hann sá með kíki heiman frá sér enda býr hann á Felli í Finnafirði, nánast við rætur fjallsins. Það fór þó svo að hann elti ána upp á klettasyllu en komst síðan ekki niður aftur. Um 80 manns komu að þessari björgunaraðgerð en aðstæður voru afar erfiðar og fór svo að marga klukkutíma tók að komast til hans í myrkri og rigningu. Það var ekki fyrr en undir morgun sem hann var kominn aftur í faðm fjölskyldurnar sem að vonum var ekki rótt á meðan á þessu stóð. Þyrla landhelgisgæslunnar var kölluð til, ásamt björgunarsveitum úr nágrenninu. Þá var áhöfnin á Geir ÞH kölluð til en þeir lýstu með sterkum ljóskastara upp í bjargið, ásamt bátinum Finna frá Bakkafirði.