08.10.2013
Áhrif frystingar á gæði makríls
Síðastliðið sumar voru gerðar áhugaverðar mælingar á makríl á mismunandi stigum frystingar, en það var Jónína Sigríður á Svalbarði sem framkvæmdi rannsóknina í samstarfi við Ísfélag Vestmannaeyja, Matís og Þekkingarnet Þingeyinga. Skýrslan er nú komin út og hana má finna á vef Þekkingarnetsins hac.is. Mælingar þessar voru gagnlegar fyrir Ísfélagið að sögn Siggeirs Stefánssonar framleiðslustjóra á Þórshöfn. Í inngangi skýrslunnar segir m.a. "Hér verður fjallað um frystingu makríls (Scomber scombrus) annarsvegar með hefðbundnum plötufrysti og hinsvegar með svokölluðum gírófrysti eða lausfrysti með tilliti til hitaferla. Einnig voru áhrif frystingarinnar á gæði vörunnar athuguð með stöðluðu gæðamati á ferskum sýnum af makríl beint eftir löndun og svo gæðamati á afþýddum sýnum er farið höfðu í gegnum frystitækin. Alls voru fimm eiginleikar kannaðir. Þeir voru roðskemmdir, ferskleiki, los, blóðflekkir og lífhimnulitur. Tilgangurinn var að kanna nánar þennan hluta framleiðslunnar með það að markmiði að auka skilvirkni og bæta þar með gæði vörunnar um leið. Lögð var áhersla á að fá samanburð á þessum tveimur tegundum frystitækja." Skýrsluna má finna hér. / GBJ